Stjórn og trúnaðarráð Framsýnar kom saman til fundar í gær. Tilefni fundarins var að ganga frá nokkrum atriðum varðandi komandi aðalfund í næstu viku. Þá urðu umræður um atvinnumál á félagssvæðinu og komandi vetur. Almennt höfðu fundarmenn áhyggjur af stöðunni enda töluvert atvinnuleysi á svæðinu um þessar mundir sem á eftir að aukast þegar líður á haustið. Í dag er atvinnuleysið um 5%. Umræður urðu um starfsmannamál en Aðalsteinn J. Halldórsson sem verið hefur í 50% starfi við vinnustaðaeftirlit auk þess að sinna almennum skrifstofustörfum hefur sagt upp störfum hjá stéttarfélögunum þar sem hann hefur ráðið sig til Búnaðarsambands Þingeyinga. Starfsmannamálin verða til skoðunar á næstu vikum og til greina kemur að auglýsa eftir starfmanni í staðinn fyrir Alla. Á fundinum í gær kom fram að framundan er töluverð vinna varðandi endurnýjun á stofnanasamningum við ríkisstofnanir og vinnutímastyttingar hjá starfsmönnum sveitarfélaga. Þá verður farið í viðræður við PCC í lok þessa mánaðar varðandi kjör og vinnutíma starfsmanna. Vilji er til þess að laga starfsumhverfi starfsmanna enn frekar. Fjallað var um samstarf Verkalýðsfélags Þórshafnar og Framsýnar sem menn vilja taka upp, ekki síst á tímum Covid- 19. Ríkissáttasemjari hefur boðað komu sína til félagsins í næstu viku, að sjálfsögðu verður honum tekið fagnandi. Málefni Sjóminjasafnsins á Húsavík voru til umræðu, óánægja er með stöðuna, það er hvernig safnið hefur drappast niður á undanförnum árum. Ákveðið var að senda Menningarmiðstöð Þingeyinga bréf og gera athugasemdir varðandi stöðu mála. Fiskeldi Austfjarða hefur gert Framsýn kauptilboð í hlut Framsýnar í Rifós. Samþykkt var að selja fyrirtækinu hlut félagsins. Formanni falið að ganga frá sölunni. Að lokum urðu miklar umræður um umræðuna sem fór að stað varðandi lokun PCC á Bakka og ummæli sem viðhöf hafa verið um lokunina þar sem m.a. er verið að hæðast af atvinnumissi fólks. Þá hefur ASÍ ekki séð ástæðu til að fjalla sérstaklega um málið sem er ansi athyglisvert í ljósi þess hvað það er alvarlegt og snertir margar fjölskyldur hér norðan heiða.