Skin og skúrir í atvinnumálum

Það hefur verið ánægjulegt að fylgjast með þeim mikla straumi íslenskra ferðamanna sem komið hefur til Húsavíkur í sumar eftir erfiðan vetur. Erlendir ferðamenn eru einnig farnir að láta sjá sig eftir ferðabannið, sem er vel.

Bærinn hefur frá því í vor iðað af lífi og forsvarsmenn veitinga- og gististaða hafa almennt verið ánægðir með sumarið. Ekki má gleyma því að Húsavík hefur upp á mikið að bjóða, einstakt bæjarstæði, náttúruperlur, afþreyingu, gott mannlíf og ekki síst öfluga ferðaþjónustu. Ekki skemmir fyrir að kvikmyndin The Story of Fire Saga, sem vakið hefur heimsathygli, var að hluta til tekin upp á Húsavík. Fólk á öllum aldri heyrist nú syngja lögin úr myndinni, ekki síst;  “Ja ja ding dong og Husavik-My Hometown“. Já, það er gaman að þessu.

Á sama tíma og ber að gleðjast yfir þessum viðsnúningi, sem byggir á því að Íslendingar hafa í ljósi aðstæðna í heiminum valið að ferðast innanlands í sumar og fleiri en færri valið Húsavík sem viðkomustað berast slæmar fréttir af rekstri PCC BakkiSilicon hf.

Í dag er svo komið að fyrirtækið PCC sem hóf framleiðslu vorið 2018 er orðið eitt öflugasta fyrirtækið í Þingeyjarsýslum sérstaklega hvað varðar umsvif og skatttekjur til samfélagsins, ríkis og sveitarfélaga. Mikilvægi PCC er óumdeilt. Þannig námu heildarlaunagreiðslur fyrirtækisins árið 2019 rúmum 1,4 milljarði sem þýðir að útsvarstekjur sveitarfélagsins vegna starfseminnar voru um 200 milljónir á sama tíma. Þar fyrir utan hefur félagið verið stór vöru- og þjónustukaupandi af aðilum í héraðinu og árið 2019 námu þau kaup rúmum hálfum milljarði króna.

Að starfseminni hafa komið um 150 starfsmenn, launakjör hafa verið góð miðað við önnur starfskjör á félagssvæði Framsýnar og þá er fyrirtækið með hærri skattgreiðendum á svæðinu. Fyrirtækið er því afar mikilvægt fyrir íbúa Norðurþings. Ég er ekki viss um að allir íbúar sveitarfélagsins geri sér grein fyrir þessu. Þá má geta þess að PCC greiddi mest allra fyrirtækja til Framsýnar á árinu 2019, það er launatengd gjöld í sjúkra-, orlofs- og starfsmenntasjóði félagsins. Það að PCC greiði mest til Framsýnar segir mikið um mikilvægi fyrirtækisins á svæðinu.

Nú eru hins vegar blikur á lofti, fyrirtækið hefur gengið í gegnum erfiða tíma þau ár sem það hefur verið starfandi. Afurðaverð hefur verið í sögulegu lágmarki og þá hefur PCC þurft að takast á við heimsfaraldur sem reynst hefur fyrirtækinu mjög erfiður. Það erfiður að fyrirtækið hefur sagt upp um 80 starfsmönnum. Áður hafði ekki verið ráðið í stöður sem losnuðu. Flestir þeirra sem missa vinnuna munu ganga út um næstu mánaðamót. Frá þeim tíma tekur ákveðin óvissa við. Farið verður í umfangsmiklar breytingar á verksmiðjunni í ágúst til að gera hana betri og öruggari í rekstri. Markmið stjórnenda er að lagfæra verksmiðjuna og hefja starfsemi um leið og markaðsmál lagast og áhrifa Covid hættir að gæta. Ljóst er að vilji stjórnenda fyrirtækisins er að hefja starfsemi um leið og aðstæður leyfa. Það er að um tímabundna lokun sé um að ræða. Ekki er að finna neina uppgjöf þrátt fyrir að efnahagslífið í heiminum sé í miklum ólgusjó.

Ánægjulegt er að fyrirtækið hefur biðlað til Framsýnar um að kjarasamningur aðila verði þróaður frekar á næstu mánuðum með það að markmiði að bæta enn frekar starfsumhverfi starfsmanna, hvað varðar vinnutímastyttingu fyrir sömu laun. Reyndar má geta þess að núverandi stjórnendur fyrirtækisins hafa lagt mikið upp úr góðu samstarfi við Framsýn, ekki síst á undanförnum mánuðum, þar sem rekstrarumhverfi fyrirtækisins sem og flestra annarra fyrirtækja á Íslandi hefur ekki verið ákjósanlegt vegna heimsfaraldursins. Fyrir viljann til samstarfs ber að þakka enda alltaf vænlegast til árangurs að menn vinni sig saman í gegnum vanda sem þennan.

Ljóst er að staðan hjá PCC hefur víðtæk áhrif í samfélaginu enda hafa margir undirverktakar og þjónustuaðilar tekjur af samskiptum við fyrirtækið. Þá er fyrirtækið stórnotandi á orku frá Landsvirkjun sem verður af miklum tekjum, sem og Húsavíkurhöfn, en tekjur hafnarinnar byggja ekki síst á flutningi um höfnina er tengist starfseminni á Bakka. Stjórnendur fyrirtækja sem verið hafa í viðskiptum við PCC hafa sett sig í samband við Framsýn og boðað samdrátt og uppsagnir þar sem þeir munu missa viðskipti við PCC á næstu vikum og mánuðum. Vissulega þarf ekki að tíunda það að samdráttur á Bakka hefur víðtæk áhrif á samfélagið allt.

Hins vegar má stundum ætla að fólk sem tjáir sig um þessi mál á opinberum vettvangi geri sér ekki alltaf grein fyrir alvöru málsins. Þó einhverjir sjái ástæðu til að fagna sérstaklega lokun PCC á Bakka vil ég benda á að lokunin er ekkert sérstakt gleðiefni fyrir allar þær fjölskyldur hér á svæðinu sem byggt hafa afkomu sína á vinnu við kísilverið, beint eða óbeint sem og Norðurþing. Vissulega má alltaf deila um hvað er rétt eða rangt þegar kemur að atvinnuuppbyggingu, en verum málefnaleg í skrifum okkar.

Við sem byggjum þetta samfélag á hverjum tíma eigum að hafa skoðanir, en jafnframt virða skoðanir annarra. Markmiðið á að vera að gera gott samfélag betra á okkar forsendum, ekki forsendum annarra. Ég fékk einu sinni samtal frá einstaklingi sem bjó á Húsavík sem unglingur en flutti síðar í burtu. Viðkomandi hafði heyrt mig tala fyrir atvinnuuppbygginu á Húsavík, ekki síst á Bakka. Taldi viðkomandi það algjöran óþarfa, hann vildi halda í Húsavík eins og hún var þegar hann yfirgaf sinn heimabæ, þá unglingur, nú komin á efri ár.  Það dugar mér ekki enda búsettur á staðnum en ekki löngu brotfluttur, ég vil sjá Húsavík eflast enn frekar með öflugu atvinnu- og félagslífi. Það er okkar heimamanna á hverjum tíma að hafa áhrif á þróun mála, okkur öllum til hagsbóta sem hér búum.

Höfum í huga að á bak við uppsagnir PCC á Bakka eru starfsmenn fyrirtækisins og fjölskyldur þeirra. Ekki er ólíklegt að málið varði um 140 fjölskyldur beint í dag, það er fjölskyldur starfsmanna á Bakka og fjölskyldur þeirra sem missa vinnuna hjá undirverktökum og þjónustufyrirtækjum sem verið hafa í viðskiptum við PCC. Óvissan um afkomu öryggi nagar þessar fjölskyldur svo vitnað sé í samtöl sem forsvarsmenn Framsýnar hafa átt við hlutaðeigandi fjölskyldur og síðan má vitna í viðtal sem var við fjölskyldu sem tengist málinu í síðasta Vikublaði. Viðtalið er spegilmynd af stöðu þessa fólks. Best er fyrir samfélagið að framleiðslustoppið vari ekki marga mánuði. Vonandi gengur það eftir.

Framsýn mun standa þétt við bakið á þeim starfsmönnum sem missa vinnuna um næstu mánaðamót og mánaðamótin þar á eftir. Félagið hefur komið á fót vinnumiðlun til að bregðast við vandanum. Það gleðilega er að fyrirtæki og sveitarfélög hafa sett sig í samband við félagið og boðið starfsmönnum vinnu á svæðinu. Í flestum tilvikum er um að ræða tímabundna vinnu s.s. við slátrun og fiskvinnslu enda vonir bundnar við að framleiðsla hefjist sem fyrst aftur á Bakka. Það er jú markmiðið sem verður að ganga eftir.

Á þessum erfiðu tímum hefur sveitarstjórn Norðurþings einnig óskað eftir góðu samstarfi við Framsýn.  Að sjálfsögðu er stéttarfélagið reiðubúið í slíkt samstarf, enda alltaf verið stór þáttur í starfi félagsins að efla atvinnulífið á félagssvæðinu, félagsmönnum og samfélaginu öllu til hagsbóta. Áfram gakk félagar!

Aðalsteinn Árni Baldursson,
formaður Framsýnar stéttarfélags