Ályktað um Reykjavíkurflugvöll – vinnubrögð borgarstjórnar óskiljanleg með öllu

Á fundi stjórnar Framsýnar í gær urðu miklar umræður um Reykjavíkurflugvöll og mikilvægi hans varðandi áætlunar- og sjúkraflug. Fram kom megn óánægja með framgöngu Borgarstjórnar Reykjavíkur í málinu. Svo virðist sem allt sé gert til að koma starfseminni úr Vatnsmýrinni, það er innanlandsfluginu. Nú síðast berast fréttir af því að til standi að gera veg í gegnum flugskýli Flugfélagsins Ernis á Reykjavíkurflugvelli og það bótalaust fyrir flugfélagið.  Gjörningur sem þessi á vel heima í næsta áramótaskaupi, svo vitlaus er hann. Eftir umræður samþykkti Framsýn að senda frá sér svohljóðandi ályktun um málið:

Ályktun
Um Reykjavíkurflugvöll

„Framsýn stéttarfélag krefst þess að Borgarstjórn Reykjavíkur standi vörð um Reykjavíkurflugvöll og tryggi þar með eðlilegt áætlunar- og sjúkraflug um flugvöllinn.

Reykjavík stendur ekki undir nafni sem höfuðborg landsins haldi núverandi borgarstjórn áfram þeirri vegferð að leggja flugvöllinn af í skrefum.

Nýjasta dæmið eru tillögur skipulagsyfirvalda í Reykjavík að leggja veg í gegnum flugskýli Flugfélagsins Ernis á Reykjavíkurflugvelli, bótalaust. Um er að ræða forkastanleg vinnubrögð af hálfu borgaryfirvalda.

Ekki þarf að taka fram að Flugfélagið Ernir gegnir mikilvægu hlutverki í flugsamgöngum landsins. Það að þrengja frekar að starfsemi flugfélagsins á Reykjavíkurflugvelli gerir þeim erfiðara um vik að halda uppi eðlilegum samgöngum í lofti.

Að mati Framsýnar má það ekki gerast og skorar því félagið á borgaryfirvöld  að beita sér fyrir því að efla innanlandsflugið í stað þess að vinna markvist að því að leggja af flug um Reykjavíkurflugvöll.“