Stjórnendur HSN og Hvamms heimili aldraðra á Húsavík leggja mikið upp úr því að nýir starfsmenn á hverjum tíma fái góða fræðslu um starfsemi þessara stofnanna og fræðist auk þess um réttindi þeirra og skyldur á vinnumarkaði. Fulltrúar Framsýnar tóku vel í beiðni stjórnenda Hvamms og HSN um að vera með fræðslu fyrir starfsmenn sem eru um þessar mundir að hefja störf hjá þeim. Fræðslan fór fram í síðustu viku.
Hlutverk stéttarfélaganna var að fara yfir helstu ákvæði í kjarasamningum er snúa að störfum starfsmanna sem starfa annars vegar eftir kjarasamningi starfsmanna sveitarfélaga og hins vegar eftir kjarasamningi ríkisstarfsmanna sem Framsýn á aðild að fyrir sína félagsmenn. Það er til mikillar fyrirmyndar þegar stofnanir eða fyrirtæki biðja um fræðslu sem þessa. Starfsfólk stéttarfélaganna er ávallt reiðubúið að koma í heimsókn með fyrirlestra/námskeið um réttindi og skyldur fólks á vinnumarkaði.
Áhugasamir starfsmenn hlýða á fulltrúa Framsýnar fara yfir helstu ákvæði kjarasamninga.