Fundað um málefni SSNE

Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra (SSNE) urðu til 1. janúar á þessu ári þegar landshlutasamtökin Eyþing, Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar og Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga voru sameinuð í eitt félag. Í samþykktum fyrir SSNE segir að markmið með starfsemi SSNE sé að efla Norðurland eystra sem eftirsótt til búsetu og atvinnu. Stofnun félagsins byggir á faglegum ávinningi, auknum slagkrafti, skilvirkari vinnu og auknum sóknarfærum til að auka fagþekkingu innan stoðstofnana á starfssvæðinu. „SSNE skal vera sterkur bakhjarl aðildarsveitarfélaga í sameiginlegum málum þeirra og stuðla að góðu mannlífi, lifandi menningarlífi og öflugri atvinnustarfsemi á starfssvæðinu.“ Þá kveða samþykktir fyrir SSNE á um hlutverk félagsins sem er að þjónusta sveitarstjórnir og atvinnulíf á starfssvæðinu til að ná markmiðum sem nánar eru tilgreind í samþykktunum. Eyþór Björnsson var ráðinn framkvæmdastjóri samtakanna í janúar. Reiknað er með fjórum starfsstöðvum á starfssvæði SSNE.

Eins og kunnugt er hefur Framsýn gagnrýnt harðlega þá ákvörðun að leggja niður starfsemi Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga og sameina það Eyþingi og Atvinnuþróunarfélagi Eyjafjarðar þar sem félagið telur það vera mikla afturför fyrir atvinnulífið í Þingeyjarsýslum. Best fari á því að atvinnuþróun og stuðningur við atvinnulífið í Þingeyjarsýslum sé í höndum Þingeyinga.

Framkvæmdastjóri SSNE, Eyþór Björnsson, óskaði eftir fundi með formanni Framsýnar til að ræða almennt um starfsemi nýju samtakanna. Fundurinn fór fram í gær þar sem menn skiptust á skoðunum um málefni SSNE og aðdragandann að stofnun samtakanna. Í máli Eyþórs kom skýrt fram að hann leggur mikið upp úr góðu samstarfi við heimamenn sem og aðra sem koma að starfsemi SSNE. Formaður Framsýnar kallaði eftir því að samtökin yrðu virk og sýnileg á félagssvæði Framsýnar sem næði frá Vaðlaheiði til Raufarhafnar. Skýr vilji kom fram á fundinum hjá báðum aðilum um að eiga gott samstarf er viðkemur atvinnumálum í Þingeyjarsýslum.