Breytingar á kjörum iðnaðarmanna 1. apríl

Samkvæmt kjarasamningum sem gerðir voru við Samtök atvinnulífsins í fyrravor verður tekinn upp virkur vinnutími 1. apríl næstkomandi. Starfsmaður í fullu starfi fær greiddar 37 vinnustundir á viku fyrir fullt starf. Deilitala dagvinnutímakaups verður 160 í stað 173,33 tímar. Jafnframt er í samningum heimild til að semja um 36 stunda vinnuviku. Hér fyrir neðan er texti úr dreifibréfi frá iðnfélögunum í Húsi fagfélaganna, sem fer til um fjögur þúsund launagreiðenda á næstu dögum vegna þeirra breytinga sem framundan eru.

Við upptöku virks vinnutíma eru 37 klst. greiddar að jafnaði á viku m.v. fullt starf í stað 40 klst. og deilitala dagvinnutímakaups verður 160 í stað 173,33. Tímakaup í dagvinnu  hækkar því um 8,33% eða sem nemur greiðslu fyrir kaffitíma sem færist yfir í tímakaup fyrir virkan vinnutíma, kaffitímar verða áfram teknir með sama fyrirkomulagi og áður, 35 mínútur á hverjum virkum degi. Ef færri tímar eru greiddir á viku / mánuði m.v. fullt starf skal reikna hækkun þannig að dagvinnulaun fyrir 37 klst. á viku / 160 klst. á mánuði verði þau sömu og áður var greitt fyrir fleiri tíma. Þar sem starfsmaður nýtur aukagreiðslna m.v. 40 klst. á viku (t.d. verkfæra- eða fatagjalds) taka þær hækkun 8,33% til samræmis.

Engar breytingar eru gerðar á fyrirkomulagi kaffihléa í yfirvinnu, þau verða áfram greiddur tími og sé unnið í þeim greiðist tilsvarandi lengri tími sem unninn er.

Dæmi til 31.03.2020

Mánaðarlaun Deilitala Tímakaup
500.000 173,33 2.885 kr.

Dæmi frá 01.04.2020 með kr.18.000 hækkun sem koma á öll laun 01.04. 2020.

Mánaðarlaun Deilitala Tímakaup
518.000 kr.* 160 3.238 kr.
  • Öll dagvinnulaun hækka um a.m.k.kr. 18.000,- eða 112,50 pr. tíma frá 1. apríl 2020.

Breyting á yfirvinnuálagi

Yfirvinna 1

Yfirvinna 1 er greidd fyrir fyrstu fyrstu 4 klst á viku að jafnaði eða 17,33 klst á mánuði. Álag á yfirvinnu 1 verður 1,02% af mánaðarlaunum fyrir dagvinnu. Yfirvinna 2 er greidd umfram það.

Yfirvinna 2

Yfirvinna 2 greiðist fyrir alla tíma umfram 17,33 yfirvinnutíma á mánuði og á nóttunni á milli                         kl. 00:00-06:00. Álag á yfirvinnu 2 verður 1,10% af mánaðarlaunum fyrir dagvinnu.

Mánaðarlaun Álag Tímakaup
518.000 kr. 1,02% 5.284 kr.
518.000 kr. 1,10% 5.698 kr.

Stytting vinnuvikunnar

Starfsmenn eiga rétt á að fram fari viðræður um vinnutímastyttingu í 36 virkar vinnustundir á viku að jafnaði samhliða niðurfellingu kaffitíma skv. gr. 3.1.2 í kjarasamningi. Stjórnendur fyrirtækja geta einnig óskað eftir viðræðum.

Ef samkomulag verður á milli aðila vegna bættrar nýtingar vinnutíma og aukinnar framleiðni skiptist ávinningur milli starfsmanna og atvinnurekanda, hlutdeild starfsmanna felst í viðbótarstyttingu virks vinnutíma um 13 mín á dag eða 65 mín á viku.

Viðbótarstytting virks vinnutíma

Náist samkomulag um styttingu vinnuvikunnar verður virkur vinnutími 36 klst. á viku, án skerðingar mánaðarlauna (deilitala dagvinnutímakaups 156 í stað 160 með 2,56% hækkun dagvinnutímakaups).

Yfirvinna 1 greiðist áfram af fyrstu 4 klst á viku að jafnaði umfram 36 klst í dagvinnu eða 17,33 klst á mánuði.

Stéttarfélögin sem standa að þessum kjarasamningum eru tilbúin að veita aðstoð við útfærslu og vera félagsmönnum sínum innan handar við styttingu vinnuvikunnar.

>> Sjá nánar glærukynningu       >> Sjá spurt og svarað