Eins og fram hefur komið gerði Framsýn og SANA, samtök atvinnurekanda í Þingeyjarsýslum alvarlegar athugasemdir við ákvörðun sveitarstjórna í Þingeyjarsýslum að falla fyrir hugmyndum um að sameina Eyþing, Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar og Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga í eina stofnun. Nýja félagið hefur fengið nafnið; Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra (SSNE). Allt bendir til þess að aðalstöðvarnar verði á Akureyri enda nýi framkvæmdastjórinn staðsettur þar.
Á heimasíðu Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga kemur fram að sex starfsmenn starfi hjá félaginu, vitað er að hluti af þeim voru ráðnir til að sinna tímabundnum verkefnum eins og Betri Bakkafjörður. Reinhard Reynisson hefur um árabil verið framkvæmdastjóri AÞ og var einn af þeim umsækjendum sem komu til greina sem framkvæmdastjóri nýja sameinaða félagsins SSNE. Hann fékk hins vegar ekki stuðning í starfið hjá þeim sem tóku endanlega ákvörðun um ráðninguna sem voru mikil vonbrigði enda Reinhard staðið sig afar vel í þeim verkefnum sem AÞ hefur komið að á svæðinu, ekki síst verkefnum sem tengjast Brothættum byggðum frá Öxarfirði til Bakkafjarðar.
Í byrjun mars skrifaði Framsýn sveitarfélögum sem aðild eiga að Atvinnuþróunarfélagi Þingeyinga bréf, og spurðist fyrir um hvenær lýðræðisleg ákvörðun hefði verið tekin hjá sveitarfélögunum að leggja AÞ niður í núverandi mynd og sameinaða það Eyþingi og Atvinnuþróunarfélagi Eyjafjarðar. Þetta eru sveitarfélögin Norðurþing, Skútustaðahreppur, Þingeyjarsveit, Svalbarðshreppur og Langanesbyggð. Tjörneshreppur hefur frá upphafi verið eina sveitarfélagið sem hefur lagst gegn þessari sameiningu og var því ekki beðið formlega um að svara erindinu.
Nú ber svo við að aðeins eitt sveitarfélag virðist hafa tekið málið formlega fyrir á fundi og afgreitt það. Það er að sameina þessar þrjár stofnanir í eina, það er Skútustaðahreppur. Í bréfi frá sveitarfélaginu til Framsýnar er þetta staðfest sem ber að virða. Önnur sveitarfélög hafa ekki séð ástæðu til að svara erindinu og upplýsa um verklag við ákvörðunartökuna. Eða hvort hún hafi almennt verið tekin formlega. Að sjálfsögðu er það ótrúlegt ef svo er, og á skjön við almenna stjórnsýslu, hafi sameining þessara þriggja stofnanna ekki verið tekin fyrir með formlegum hætti hjá sveitarfélögunum sem í hlut eiga. Með því að svara ekki erindi Framsýnar eru sveitarfélögin að viðurkenna að þau hafi ekki tekið málið formlega fyrir til afgreiðslu.
Meðfylgjandi frétt er tekin af heimasíðu Byggðastofunnar þar sem upplýst er að Reinhard Reynison hafi verið ráðinn til starfa hjá stofnunninni. Hann er boðinn velkomin til starfa en alls bárust 36 umsóknir um þrjú störf hjá stofnunninni. Reinhard var einn þessara þriggja umsækjanda sem voru taldir hæfastir til starfa á þróunarsviði stofnunarinnar.
Framsýn stéttarfélag óskar Reinhard velfarnaðar í nýju starfi um leið og félagið þakkar honum fyrir vel unnin störf í þágu Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga.
Nýir starfsmenn á þróunarsvið Byggðastofnunar
„Í febrúar s.l. auglýsti Byggðastofnun eftir sérfræðingum til starfa á þróunarsviði stofnunarinnar. Alls bárust 36 umsóknir, 17 frá konum og 19 frá körlum. Nú hefur verið ákveðið að ráða í störfin Reinhard Reynisson, Ölfu Dröfn Jóhannsdóttur og Þorkel Stefánsson og er reiknað með að þau hefji störf í maí mánuði.
Reinhard stundaði meistaranám í Evrópufræðum við Háskólann á Bifröst og er með BA gráðu í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands. Reinhard hefur verið framkvæmdastjóri Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga frá árinu 2008, þar áður bæjarstjóri á Húsavík frá 1998 til 2006.
Alfa Dröfn útskrifast með MA gráðu í félagsvísindum með áherslu á byggðafræði frá Háskólanum Akureyri vorið 2020 og er með BA gráðu í félagsvísindum með áherslu á norðurslóðafræði frá sama skóla. Hún hefur starfað hjá Akureyrarbæ sem sérfræðingur í félagsmálum barna m.a. stýrði hún innleiðingarferli Barnasáttmála Sameinuðu Þjóðanna hjá Akureyrarbæ.
Þorkell er með MS og BS gráður í ferðamálafræði frá Háskóla Íslands og diplóma í rannsóknaraðferðum félagsvísinda frá HÍ og stundar nú nám í tölvunarfræði við Háskólann í Reykjavík. Þorkell hefur unnið við rannsóknir við ferðamálafræðideild Háskóla Íslands frá árinu 2007. Þá hefur hann sinnt aðstoðarkennslu bæði í Háskóla Íslands og Háskólanum á Bifröst.
Þau eru öflugur liðsauki við fjölhæft starfslið stofnunarinnar og við hlökkum til samstarfsins.“