Fæðuöryggi er fremur nýtt hugtak í alþjóðlegri umræðu og fyrir mörgum er það enn nokkuð framandi. Á undanförnum áratugum hefur heimsmyndin tekið stakkaskiptum og afleiðingin er meðal annars sú að nú er talið brýnt fyrir hverja þjóð að móta stefnu sem tryggir fæðuöryggi hennar í framtíðinni. Áhyggjur manna eru heldur ekki að ástæðulausu, því helstu sérfræðingar í loftslagsmálum spá því að stórir heimshlutar, þar sem nú er framleiddur matur verði áður en langt um líður, óhæfir til matvælaframleiðslu, vegna þurrka, skógarelda eða vegna súrnunar sjávar.
Víða um heim verða kröfur almennings um breytta stefnu í matvælaframleiðslu háværari og Ísland er þar ekki undanskilið. Fyrirhyggjulaus verksmiðjuframleiðsla og aukin lyfjanotkun í matvælaframleiðslu vekur óhug/ógeð í brjósti upplýstra neytenda, er eitt að því sem gagnrýni gætir og eykur á efann um misjafnt vistspor þeirrar matvöru sem við kaupum erlendis frá. Neytendur krefjast upplýsinga um rekjanleika, upprunamerkingar og hreinleika vörunnar. Það er í takt við vaxandi meðvitund almennings um loftslagsmál, sjálfbæra þróun og umræðu um fækkun vistspora, enda gerir flest hugsandi fólk sér grein fyrir því, að ætlum við komandi kynslóðum að eiga sér lífvænlega framtíð á hér á jörð, verðum við einhverju að breyta.
Lengi vel settum við Íslendingar hugtakið „öryggi“ helst í samband við utanaðkomandi ógnir, í formi hernaðar, átaka eða hryðjuverka, við sváfum á verðinum og héldum að við værum lang flottust. Fátt þótti hallærislegra en að efast um gildi þess að óheft markaðslögmál kapítalismans ættu að ráða för og fjárhagsleg hagkvæmni væri mikilvægasta mælistikan á hvað skyldi flutt inn og hvað ekki. En svo kom blessað hrunið, íslenska krónan hrundi og innflutningskostnaður tvöfaldaðist í einni svipan. Við vorum rækilega minnt á hversu nauðsynlegt það er að við sem þjóð, séum sem mest sjálfum okkur nóg um fæðuöflun.
Nýjasta ógnin sem heimsbyggðin stendur frammi fyrir er COVID 19 veiran. Við vitum ekki hvar þau ósköp enda, en þegar er ljóst að faraldurinn leiðir af sér fjölda ótímabærra dauðdaga um allan heim, auk þess að hafa gríðarlegar efnahagslegar og pólitískar afleiðingar. Eftir COVID verður heimsmyndin breytt. Það er illt til þess að vita að verð á matvælum mun óhjákvæmilega hækka í ljósi þeirra aðstæðna sem nú eru uppi og það sem enn verra er, raskist aðflutningar gæti það stefnt fæðuöryggi þjóðarinnar í voða.
Fæðuöryggi snýst meðal annars um það að horfa fram í tímann, það er öryggismál og við Íslendingar höfum alla burði til að tryggja fæðuöryggi þjóðarinnar.Landbúnaðurinn og matvælaframleiðslan, hvort sem það er framleiðsla á dýraafurðum eða grænmeti er ein af mikilvægustu grunnatvinnuvegum okkar og það er mikilvægt að landbúnaðurinn fái viðurkennt það stóra hlutverk sem hann gegnir fyrir byggðir landsins. Vonandi ber okkur gæfu til að varðveita og nýta þessa perlu af skynsemi, þjóðinni til hagsbóta. Marka okkur stefnu að góðum matvælagrunni og styðja við íslenskan landbúnað svo hann hafi burði til að standa á styrkum fótum – eigin fótum. (ÓH)