Orðsending til veiðifélaga í Þingeyjarsýslum

Töluvert hefur borið á því að starfsmenn sem starfað hafa hjá veiðiheimilum á félagssvæði Framsýnar hafi verið í sambandi við félagið vegna óánægju með starfskjör, önnur réttindi og aðbúnað. Framsýn brást við þessum aðstæðum síðasta sumar með því að skrifa forsvarsmönnum veiðiheimila í Þingeyjarsýslum bréf varðandi þessa þætti og ítrekaði mikilvægi þess að veiðifélögin hefðu þessi í mál í lagi samkvæmt ákvæðum kjarasamninga. Sum veiðifélögin brugðust vel við og ætla að bæta úr meðan önnur sögðust vera með sín mál í lagi.

Því miður sáu ekki öll veiðifélögin ástæðu til að svara erindi stéttarfélagsins.  Rétt er að geta þess að málefni starfsmanna í veiðiheimilum hafa verið til umræðu á vetfangi Starfsgreinasambands Íslands. Framkvæmdastjóri sambandsins hefur meðal annars fundað með forsvarsmönnum Landssambands veiðifélaga. Til stendur að gera átak í sumar þar sem flest ef ekki öll veiðiheimili landsins verða heimsótt og kallað eftir upplýsingum um starfsemina. Ekki er ólíklegt að opinberir aðilar verði með í för og taki þátt í eftirlitinu. Framsýn skorar hér með á veiðifélögin í Þingeyjarsýslum að hafa þessi mál í lagi eins og lög og reglur á vinnumarkaði kveða á um, nú þegar ráðningar standa yfir vegna veiðitímabilsins sumarið 2020.