Fréttatilkynning frá SANA og Framsýn stéttarfélagi vegna sameiningar atvinnuþróunarfélaga  

FRÉTTATILKYNNING FRÁ SAMTÖKUM ATVINNUREKENDA Á NORÐAUSTURLANDI (SANA) OG FRAMSÝN STÉTTARFÉLAGI Í ÞINGEYJARSÝSLUM

Misráðin sameining  Atvinnuþróunarfélaga í Eyjarfirði og Þingeyjarsýslum

Nýverið samþykktu sveitarfélögin við Eyjafjörð og í Þingeyjarsýslum að sameina Atvinnuþróunarfélög Eyjafjarðar og Þingeyinga við landshlutasamtökin Eyþing. Þessi nýju samtök kalla sig Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra (SSNE). Ákvörðun um þetta var tekin af meirihluta í þeim  sveitarstjórnum í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum sem mynda kjölfestuna í hinu nýja félagi. Hvorki almennir íbúar eða  fyrirtæki höfðu sérstakt vægi við þessa ákvörðun og heyrðu  einungis af henni í fjölmiðlum. Þannig voru ekki haldnir kynningarfundir fyrir íbúa eða fyrirtæki í aðdraganda þessarar ákvörðunar.

Samtök atvinnurekenda á Norðausturlandi (SANA) og Framsýn stéttarfélag hafa átt sinn fulltrúann hvort í  stjórn Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga um árabil. Báðir þeir stjórnarmenn voru skeptískir á þennan samruna sem myndað hefur SSNE enda þótti þeim óljóst hver hagræðið ætti að vera fyrir
stuðning við atvinnulíf í Þingeyjarsýslum.  Auk þess óttuðust  þeir að völd og ákvarðanataka hins nýja félags myndu verða á  Akureyri vegna ójafns íbúafjölda. Afstaða SANA og Framsýnar gat ekki komið í veg fyrir samrunann enda hafa sveitarfélögin sjálf  lang mest vægi innan félaganna þriggja.

Nú hefur komið í ljós það sem fulltrúar SANA og Framsýnar  óttuðust – þ.e. að í samþykktum hins nýja félags SSNE stendur skýrum stöfum að stjórnarformaður nýja félagsins skuli um  ókomna tíð koma frá Akureyri hvað sem tautar og raular.  Nýráðinn framkvæmdastjóri SSNE er svo auk þess einnig búsettur á Akureyri. Meirihluti stjórnar verður frá Eyjafjarðarsvæðinu í krafti íbúafjölda. Í samþykktunum kemur þó fram að  varnarþing skuli vera á Húsavík en það hefur augljóslega lítið vægi miðað við hin atriðin.

Stjórn SANA og Framsýnar skora hér með á sveitarfélögin í  Þingeyjarsýslum að ganga tafarlaust úr nýstofnuðu félagi enda  liggur fyrir að völd og ákvarðanataka verður öll utan Þingeyjarsýslna og því mun betur heima setið fyrir Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga en af stað farið.

Húsavík, 7. febrúar 2020

 Í stjórn SANA,
Guðmundur Vilhjálmsson formaður, framkvæmdastjóri Garðvíkur ehf
Valdimar Halldórsson, framkvæmdastjóri Norðursiglingar hf.
Helgi Kristjánsson, framkvæmdastjóri Gríms ehf.

Fyrir hönd Framsýnar,
Aðalsteinn Á. Baldursson formaður