Gengið frá kjarasamningi við Landsvirkjun

Starfsgreinasamband Íslands gekk frá nýjum kjarasamningi við Landsvirkjun í gær sem tekur við af fyrri samningi sem rann út 31. desember 2018. Samningurinn gildir til 1. nóvember 2022. Samningurinn byggir að mestu á Lífskjarasamningnum. Til viðbótar þeim samningi kemur til vinnutímastytting hjá starfsmönnum og launaflokkar vegna reynslu og menntunar. Kjarasamningurinn fer nú í kynningu og atkvæðagreiðslu. Þeir starfsmenn sem starfa eftir kjarasamningnum munu greiða sameiginlega um samninginn. Atkvæðagreiðslunni skal lokið fyrir 14. febrúar. Verði samningurinn samþykktur tekur hann þar með gildi. Kjarasamningurinn nær til félagsmanna Framsýnar sem starfa við Kröflu- Laxár- Bjarnaflags- og Þeistareykjavirkjun. Formaður Framsýnar tók þátt í viðræðunum sem staðið hafa yfir undanfarna mánuði með hléum. Meðfylgjandi mynd er tekinn síðdegis í gær við undirritun samningsins.