Jólasveinn ársins 2019

Guðmunda Steina Jósefsdóttir var valin „Jólasveinn ársins 2019“ á lokafundi stjórnar og trúnaðarráðs Framsýnar á árinu. Trúnaðarmönnum á vinnustöðum, starfsmönnum stéttarfélaganna og stjórn Framsýnar-ung var einnig boðið að sitja fundinn sem fram fór á föstudaginn. Fundarmönnum bauðst að kjósa þann félagsmann sem þykir hafa skarað fram úr í starfi Framsýnar á árinu. Formaður og varaformaður voru ekki í kjöri.

Titilinn „Jólasveinn ársins 2019“ hlaut Guðmunda Steina fyrir hennar mikla og óeigingjarna starf í þágu félagsins. Guðmunda er þriggja barna móðir og býr í Laxárdal. Hún hefur verið liðtæk í starfi Framsýnar og gegnir um þessar mundir formennsku í Framsýn-ung. Með þessu öllu saman er hún í námi og vinnur einnig utan heimilis. Sem sagt hörkukona og góður félagsmaður. Þegar valið fór fram gafst mönnum kostur á að gera grein fyrir atkvæði sínu. Hér koma tvö dæmi: „Hún stendur sig vel, mætir vel, fersk og flott baráttukona!“ „Dugleg, mætir á nánast alla fundi, er í fullum skóla, vinnu og með þrjú ung börn. Bíður sig fram á öll þing.“

Guðmunda fékk ekki Óskarinn að gjöf fyrir að vera virkasti félagsmaðurinn 2019 heldur fallegan jólasvein í verðlaun. Framsýn óskar Guðmundu Steinu til hamingju með titilinn.