Soroptimistaklúbbur Húsavíkur og nágrennis stóð fyrir samkomu þann 25. nóvember sem markaði upphaf 16 daga baráttu gegn kynbundnu ofbeldi á konum og stúlkum um víða veröld. Ræðumaður dagsins var Ósk Helgadóttir varaformaður Framsýnar stéttarfélags. Ræðuna má lesa hér í framhaldinu en hún vakti töluverða athygli:
Kæru systur og bræður.
Dagurinn í dag, 25. nóvember er alþjóðlegur dagur gegn kynbundnu ofbeldi. Ofbeldi sem er ein útbreiddasta, þrálátasta og mest tortímandi ógnun við mannréttindi í heiminum og jafnframt skýrasta form mismununar. Víða um heim skipuleggja stjórnvöld og alþjóðleg samtök viðburði á þessum degi í þeim tilgangi að vekja athygli almennings á vandamálinu og þess vegna erum við hér saman komnar.
Hluti af þeirri mannréttindabaráttu sem staðið hefur um aldir er barátta kvenna um allan heim fyrir kvenfrelsi og góðum lífsskilyrðum kvenna og barna. Þótt mannréttindasáttmálar og stjórnarskrár flestra ríkja kveði á um að konur og stúlkur eigi að njóta sömu réttinda og karlmenn, þá er það staðreynd að konur standa hvergi í heiminum alveg jafnfætis karlmönnum.
Daglega heyrum við fréttir af konum sem stíga fram og segja frá því áreiti og ofbeldi sem þær hafa orðið fyrir. Það á sér stað alla daga og getur tekið á sig ólíkar myndir. Ofbeldi af því tagi er ekki bundið við stéttir, heldur beinist það að konum í öllum lögum samfélagsins.
Rannsóknir hafa sýnt að í samfélögum þar sem konur og stúlkur hafa greiðan aðgang að heilsugæslu, menntun, stjórnmálum og atvinnu ríkir meiri friður, það dregur úr fátækt og ofbeldi og hagvöxtur eykst. Berum við okkur saman við lönd sem við köllum gjarnan „vanþróuð“erum við sennilega að skora nokkuð hátt og ofbeldi er ekki lengur viðurkennd karlmennskuhegðun í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Víst geta íslenskar konur verið þakklátar fyrir það að umskurður kvenna sé ekki viðtekin venja hér á landi, við ekki notaðar sem skiptimynt í þrælasölu, eða okkur haldið á mottunni með því að skvetta sýru í andlit okkar. Hræðilegt athæfi sem við vitum að tíðkast í sumum löndum og fjölmiðlar bera okkur daglegar fréttir af. En það samt ekki þannig að íslenskt samfélag geti fríað sig af ofbeldishegðun. Væri svo, væri til dæmis ekki þörf á starfsemi Kvennaathverfsins og Stígamóta, en starfsemi þeirra dregur ofbeldi karla fram í dagsljósið og styður konur sem hafa orðið fyrir því. Árið 2018 komu 135 konur og 70 börn í Kvennaathvarfið í Reykjavík, auk þess sem 240 konur nýttu sér viðtöl, án þess að dvelja þar. Tölurnar segja samt ekki allt, þetta eru einungis þær konur sem leita sér aðstoðar. Hinar þegja þunnu hljóði. Af hverju ?
Jú, það er skömmin, sektartilfinningin og misbrestir í íslensku réttarfari sem hindra konur í að segja frá glæpum af þessu tagi, sem flestir koma ekki fram í dagsljósið. Það er gert lítið úr veruleika kvennanna og reynslu, myndin skekkt og með því hylmt yfir gerendanum, en ábyrgðin sett yfir á þolandann. Skömmin bítur. 65 prósent nauðgunarmála eru felld niður af ríkissaksóknara.
Við búum við meðvirkt réttarkerfi sem með þessum hætti gefur ákveðið samþykki fyrir því að kynbundið ofbeldi sé órjúfanlegur þáttur í menningu okkar og við konur verðum bara að gera okkar besta til að lifa með því. Við lærum þessa meðvirkni strax í æsku, tileinkum okkur afneitun til að þurfa ekki að takast á við það, þurfa ekki að tala um það. Haltu kjafti, hlýddu og vertu sæt. Þú baðst um þetta! Konur ættu hins vegar að finna sig öruggar í því að segja frá og fordæma þá sem brjóta á rétti þeirra.
Síðustu ár hefur hver kvenfrelsisaldan af annari skollið á ströndum landsins og fært okkur ferska strauma mannréttindabaráttu í öðrum vestrænum löndum. Hreyfingar eins og #Me to, druslugangan, #höfum hátt og fleiri slíkar hafa skekið heiminn og eflt samstöðu kvenna. Það hefur opnað augu kvenna og karla, dregið fram í dagsljósið þann veruleika að konur eru undirskipaðar í valdakerfi þar sem karllæg viðhorf ráða ríkum. Orðið þess valdandi að æ fleiri konur segja frá, þær opna ormagryfjur og afhjúpa „skrýmsli“ í öllum lögum samfélagsins. Jafnt í koti karls sem konungshöllu eru menn sem með hegðun sinni og gerðum hafa eyðilagt líf fjölda kvenna. Í krafti valdsins.
Konur sem ögra ríkjandi valdakerfi mega eiga von á árásum sem einkennast af karlrembu og þær standa frammi fyrir ýmsum hindrunum vilji þær komst til áhrifa. Ein ástæðan fyrir því hversu fáar konur eru leiðtogar og í forystusætum er það sem kallast „skaðleg karlmennska.” Sú hugmyndafræði felur m.a. í sér athugasemdir um útlit og klæðaburð, hundsun, þöggun, launamismunun, hótanir, kynbundið og kynferðislegt ofbeldi. Sem er óþolandi, því konur og karlar eru jafn hæf til að leiða og vera í forystuhlutverki.
Skaðleg karlmennska byggir tilveru sína á kvenfyrirlitningu. Gott dæmi um slíkt birtist okkur fyrir nákvæmlega ári síðan þegar nokkrir áhrifamenn í þjóðfélaginu sátu á bar á Austurvelli og viðhöfðu þar ósmekkleg ummæli um konur og fatlað fólk. Slík ummæli dæma sig sjálf, segja mest um viðkomandi aðila og verða þeim jafnframt til ævarandi skammar.
Kæru systur. Klaustur er víða. Við erum ekki „húrrandi klikkaðar kuntur”, við erum „hot.“ Það er kannski kominn tími til að hlusta, horfast í augu við ofbeldið sem þrífst í samfélaginu og bregðast við því.
Það er ástæða fyrir því að á íslenskum vinnumarkaði telja 45% kvenna sig hafa orðið fyrir ofbeldi af einhverju tagi og það hlutfall minnkar ekki meðan samfélagið gefur samþykki sitt fyrir því, með því að bregðast ekki við því. Við þurfum að berjast á móti rótgrónu kynjamisrétti sem orsakast af gamaldags viðhorfum og tengdum félagslegum normum og leggja meiri áherslu á forvarnir.
Á meðan kynbundið ofbeldi viðgengst og refsingar eru vægar munu frekari framfarir í jafnréttisbaráttu ekki eiga sér stað. Vöndum okkur, sérstaklega við uppeldi drengjanna okkar. Með því að stuðla að vitundarvakningu öðlumst við skilning á eðli og afleiðingum ofbeldis og með því móti eigum við möguleika á að uppræta það.
Ofbeldi er valdbeiting og kúgun! Við viljum ekki ó – menningu þar sem valdi er misbeitt í þeim tilgangi að niðurlægja og brjóta niður sjálfstraust fólks. Við segjum nei við ofbeldi og bætum þannig samfélagið fyrir okkur öll.
(Meðfylgjandi mynd af Ósk tók Hörður Jónasson)