Foreldrar ungbarna á Húsavík hafa verið í sambandi við Framsýn vegna hugmynda/tillagna Fjölskylduráðs Norðurþings um að aðlögunum á leikskólanum Grænuvöllum verði fækkað niður í tvær á ári í stað fjögurra. Þá hafa foreldrar einnig áhyggjur af því að leikskólagjöldin verði hækkuð enn frekar. Fyrir eru þau verulega há miðað við önnur sveitarfélög á Íslandi.
Varðandi stöðuna er rétt að rifja upp eftirfarandi úr svari Fjölskylduráðs til Framsýnar vegna athugasemda félagsins vegna stöðu leikskólamála á Húsavík fyrr á þessu ári, það er vegna innritunar barna og leikskólagjalda.
„Lögð hefur verið á það mikil áhersla hjá sveitarstjórnarfulltrúum sl. ár að boðið sé upp á að foreldrar geti innritað börn sín í leikskóla 12 mánaða og að skólaganga ungbarna hefjist sem næst þeim degi er börnin verða ársgömul. Þessi þjónusta hefur gengið vel og innritun barna í leikskólum sveitarfélagsins hefur haldist frá 12 mánaða aldri, þrisvar til fjórum sinnum á ári. Engir biðlistar eru á leikskólum Norðurþings.“
„Því er ljóst að fjölskylduráð sem og sveitarstjórn mun yfirfara gjaldskrána gaumgæfilega í haust og velta því fyrir sér hvort hægt sé að finna leiðir til lækkunar álaga á barnafólk með lækkun leikskólagjaldanna án þess að það hafi áhrif á þjónustustig skólanna okkar og það frábæra starf sem leikskólabörnum í sveitarfélaginu er boðið uppá. Verður horft til þessa erindis sem brýningu í þessum efnum því vitanlega vill sveitarstjórn Norðurþings áfram tryggja góða þjónustu en jafnframt að hún sé ekki úr hófi fram kostnaðarsöm fyrir foreldra ungra barna. Það er verðugt markmið.“
Til viðbótar er tekið fram í sáttmála meirihlutans: „Tryggja úrræði fyrir börn eftir að fæðingarorlofi foreldra lýkur og halda okkur við að inntökualdur leikskólabarna í Norðurþingi verði 12 mánuðir.“
Það sem veldur foreldrum miklum áhyggjum er að koma ekki börnunum inn á leikskóla við 12 mánaða aldur, í flestum tilfellum er um að ræða einstaklinga sem eru í ráðningarsambandi og ber því að mæta til vinnu eftir að töku fæðingarorlofs lýkur. Dæmi eru um að ungt fólk horfi til þess að þurfa að endurskoða ráðningarsambandið við núverandi atvinnurekendur verði aðgengi að leikskólanum skert frá því sem nú er. Það er mat Framsýnar að sveitarfélagið Norðurþing verði að bregðast við þessum „jákvæða“ vanda þegar í stað, það er að auðvelda foreldrum að koma sínum börnum á leikskóla.
Með bréfi til Norðurþings hefur Framsýn óskað eftir fundi með forsvarsmönnum sveitarfélagsins til að ræða stöðu mála. Með á fundinum verði fulltrúar frá foreldrum ungbarna á Húsavík sem óskuðu formlega eftir aðkomu Framsýnar að málinu.