Soroptimistar segja NEI við ofbeldi.

Við systur í Soroptimistaklúbbi Húsavíkur og nágrennis ætlum standa fyrir látlausri göngu þann 25. nóvember sem markar upphaf 16 daga baráttu gegn kynbundnu ofbeldi á konum og stúlkum um víða veröld:

Mæting við Húsavíkurkirkju kl. 18.00 þar sem séra Sólveig Halla Kristjánsdóttir sóknarprestur segir nokkur orð í upphafi göngu. Gengið verður í gegnum bæinn og upp í Skrúðgarð Húsavíkur og að Kvíabekk sem er lítið fallegt hús sem tilheyrir Skrúðgarðinum. Þar mun Adrienne Denise Davis spila á þverflautu og að því loknu heldur Ósk Helgadóttir varaformaður stéttarfélagsins Framsýnar ræðu dagsins. Kaffi og piparkökur verða í boði fyrir göngufólk.

Kirkjan, umhverfi Kvíabekks og fleiri staðir verða lýstir upp og skreyttir með appelsínugulu sem er litur átaksins

Alþjóðasamband Soroptimista hefur barist gegn kynbundnu ofbeldi í áratugi og er 16 daga vitundarvakningin mjög mikilvæg til að vekja athygli á þessum mannréttindabrotum. Hún á rætur að rekja allt til ársins 1991. Sameinuðu þjóðirnar hafa valið 25. nóvember, dag vitundarvakningar um útrýmingu kynbundins ofbeldis og markar hann jafnframt upphaf 16 daga átaks gegn því. Þessu sérstaka átaki lýkur á mannréttindadegi Sameinuðu þjóðanna, 10. desember sem er jafnframt alþjóðlegur dagur Soroptimista.

Allir velkomnir. Gaman væri ef sem flest göngufólk gæti klæðst eða skreytt sig með appesínugulu og komið með einhver ljós t.d vasaljós, síma, kerti eða kyndla.

Roðagyllum heiminn þann 25. Nóvember.

Soroptimistaklúbbur Húsavíkur og nágrennis.