Guðný í stjórn AN

Um síðustu helgi fór fram 36. þing Alþýðusambands Norðurlands að Illugastöðum í Fnjóskadal og voru þar samankomnir 74 fulltrúar af sambandssvæðinu, sem nær frá Þórshöfn í austri til Hrútafjarðar í vestri. Þingið tókst í alla staði mjög vel. Ein málefnanefnd var að störfum á þinginu, unnið var í hópavinnu undir stjórn Eyrúnar Valsdóttur frá ASÍ, þar sem vinnulag við kjarasamningagerð var krufið til mergjar. Einnig var ályktun um lífeyrismál samþykkt samhljóða.

Nokkrum góðum gestum var boðið til þings, en fimm fyrirlesarar fluttu þar erindi. Gréta Bergrún Jóhannesdóttir, doktorsnemi við Háskólann á Akureyri fjallaði um jafnréttisviðhorf og samfélagsáhrif í minni byggðarlögum og beindi sjónum sérstaklega að búsetu ungra kvenna og búferlaflutninga þeirra í því samhengi. Óðinn Elísson frá Fulltingi lögfræðistofu, fjallaði um muninn á slysatrygginum, samkvæmt kjarasamningi eða skaðatryggingum. Valdimar Hermannsson sveitarstjóri á Blönduósi fjallaði um gagnaverið Borealis Data Center og þau áhrif sem það hefur á nærsamfélagið með tilkomu þess á Blönduósi. Finnur Birgisson, fulltrúi frá Gráa hernum ræddi stöðu eldra fólks í þjóðfélaginu og fjallaði um fyrirhugaða málsókn Gráa hersins gegn íslenska ríkinu vegna tekjutenginga/skerðinga í lífeyriskerfinu. Drífa Snædal, forseti ASÍ, fjallaði um verkalýðsmál og leiddi umræðuna inn í panel þar sem hún ásamt formönnum aðildafélaga AN sátu fyrir svörum um verkalýðsmál. Stéttarfélögin í Þingeyjarsýslum áttu 13 fulltrúa á þinginu, það er Framsýn, Þingiðn og Verkalýðsfélag Þórshafnar.

Nýja stjórn AN skipa: Vigdís Edda Guðbrandsdóttir frá Samstöðu, Guðný Ingibjörg Grímsdóttir frá Framsýn – stéttarfélagi og Anna Júlíusdóttir frá Einingu – Iðju. Varamenn í stjórn AN eru: Bjarki Tryggvason frá Öldunni, Svala Sævardóttir frá Verkalýðsfélagi Þórshafnar, og Trausti Jörundarson frá Sjómannafélagi Eyjafjarðar.

Ályktun um lífeyrismál
„36. þing Alþýðusambands Norðurlands krefst þess að samspil lífeyrissjóða launafólks og lífeyris almannatrygginga verði tekið til gagngerrar endurskoðunar. Liður í því gæti verið að hækka almenna frítekjumarkið. 

Núverandi fyrirkomulag almannatrygginga gengur allt of langt í að skerða greiðslur úr lífeyrissjóðum og afkoma margra eldri borgara er því enn óviðunandi þrátt fyrir áratuga söfnun lífeyrisréttinda. 

Lög um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða kveða á um að öllum beri að afla sér lífeyrisréttinda með því að greiða ákveðinn hluta launa í lífeyrissjóði. Þegar að lífeyristöku kemur, er sparnaður launafólks notaður til að skerða greiðslur almannatrygginga til lífeyrisþega um hátt í 45% af greiðslunni frá lífeyrissjóðum. Að teknu tilliti til skattgreiðslna, fær lífeyrisþegi með 100.000 kr. á mánuði frá lífeyrissjóðnum um 35% í sinn hlut. Fái viðkomandi 400.000 kr. á mánuði lækkar hlutfallið í 28%.1 Ávinningurinn af sparnaðinum, sem tryggja átti áhyggjulaust ævikvöld, rennur þess í stað að stærstum hluta í ríkissjóð. 

  1. þing AN lítur svo á að núverandi fyrirkomulag sé komið í ógöngur og krefst þess að dregið verði stórlega úr skerðingum lífeyris almannatrygginga vegna útgreiðslna úr lífeyrissjóðum. Vegna þessa efast launafólk um gagnsemi þess að greiða verulegan hluta launa sinna i lífeyrissjóð til að tryggja framfærslu sína á efri árum. 

Þingið telur brýnt að launafólk njóti ávöxtunar af sparnaði sínum í samræmi við upphafleg markmið lífeyrissjóðakerfisins.“

1 Skerðingarhlutföll eru fengin með því að bera saman tölur frá reiknivél TR. Miðað er við einstakling sem býr einn.