Sláturtíð Norðlenska í fullum gangi

„Sláturtíð í Norðlenska hófst 29. ágúst síðastliðinn. Sú breyting hefur orðið á miðað við undanfarin ár að nú mun Norðlenska einungis slátra sauðfé á starfstöð sinni á Húsavík en ekki á Höfn. Þetta hefur í för með sér að þessi sláturtíð verður sú stærsta í sögunni hér á Húsavík og gert er ráð fyrir að þetta haustið verði lógað um 103.000 kindum. Sömuleiðis er þetta lengsta sláturtíð síðustu ára en reiknað er með því að síðasti dagurinn verði 31. október.

Alls voru um 125 starfsmenn ráðnir við sláturtíðina þetta haustið og af 14 þjóðernum.

Samkvæmt Sigmundi Hreiðarssyni, vinnslustjóra Norðlenska á Húsavík, er meðalvigtin sem stendur nær alveg sú sama og á sama tíma í fyrra og því líklegt að niðurstaðan í lokin verði á svipuðum nótum. Meðalvigt hússins er núna 16,56.

Aðspurður um hvort að hann sjái aukningu í slátrun á fullorðnu fé segir hann að það sé á svipuðum nótum og í fyrra.

Á myndinni að ofan má sjá Benedikt Hrólf Jónsson, Auðnum og Patrek Guðjónsson, Bárðartjörn en þeir starfa í fjárrétt Norðlenska.