Velheppnuð sumarferð stéttarfélaganna

Sunnudaginn 15. september stóðu Framsýn, Þingiðn og STH fyrir skemmtiferð á Flateyjardal. Ferðin var í upphafi skipulögð sem sumarferð um miðjan ágúst, en vegna óhagsstæðra veðurskilyrða og vatnavaxta á Flateyjardalnum var ákveðið að bíða til haustsins. Félagsmenn stéttarfélaganna voru strax áhugasamir um að komast í ferðina, en í bæði skiptin sem hún var auglýst var hún fullbókuð.

Haldið var af stað frá Húsavík snemma um morguninn, með rútu frá Fjallasýn, þar sem sjálfur kapteinninn, Rúnar Óskarsson sat við stýrið. Dagurinn, sem heilsaði bjartur og fagur skyldi nýttur vel, haldið var að stað frá Húsavík klukkan 9. að morgni og farþegar tíndir upp í rútuna jafnt og þétt á leiðinni í Fnjóskadalinn, þar sem fararstjórinn, Ósk Helgadóttir í Merki slóst í hópinn. Það hitti vel á þegar komið var niður í Dalsmynni, en Fnjóskdælir á norðurafrétt réttuðu þá um morguninn í Lokastaðarétt, eftir þriggja daga göngur á Flateyjardal. Var vel við hæfi að staldra þar aðeins við, virða fyrir sér fólk og fénað og anda að sér haustilminum af sauðfénu áður en haldið var út „Heiðina“. Stansað var á Réttarhólnum utan við Þverá, sagði Ósk frá virkjunarframkvæmdum á Hólsdal,en vinna við 5.5 MW virkjun hefur staðið þar yfir síðan í maí. Það er hreinn unaður að aka út Heiðina á haustin og fá að njóta allrar litadýrðarinnar sem náttúran býr yfir, sannkallað ævintýraland.

Það er margt að sjá og skoða á þessu fallega landsvæði og Ósk sagði frá lífinu á Heiðinni og Dalnum og lífsbaráttu fólkins sem þar bjó. Söguslóðir Finnboga ramma voru skoðaðar, sagan hans sögð í örstuttri útgáfu og því næst litið inn í Véskvíar, þar sem menn töldu forðum að væri helgur staður. Leiðin út að sjó er hálfnuð við Heiðarhús, þar sem var stansað var um stund, tekin nestispása og teygt aðeins úr útlimunum, því næst haldið sem leið lá út á „Dalinn“að sjó, framhjá fjárhúsum Brettingsstaðamanna á Nausteyri og áfram upp á Víkurhöfðann. Ekki leist nú öllum á blikuna þegar Rúnar bílstjóri hóf að klifra á fjallarútunni áleiðis upp Höfðann, en fljótlega varð þeim efahyggjumönnum ljóst að Rúnar hefði ekki fengið ökuleyfið deginum áður, enda leysti hann verkefnið vel af hendi og hikaði ekki andartak við að bakka niður Höfðann aftur. Næst lá leiðin að Brettingsstöðum. Kirkjugarðinum er vel við haldið af „Brettingum“ og Jökulsárfólki, afkomendum fólksins sem síðast byggði Dalinn. Það var stoppað um stund í garðurinum, hann skoðaður og tekin örstutt sögustund, farið yfir sögu kirkjunnar , en hún var flutt upp á land úr Flatey, en síðan aftur til baka út í eyju nokkrum áratugum síðar. Að endingu var slegið upp grillveislu í boði stéttarfélaganna, í skála Ferðafélags Húsavíkur að Hofi, þar sem öll aðstaða er hreint til fyrirmyndar. Eftir að hafa gert vel við sig í mat og drykk hélt hópurinn síðan heimleiðis. Komið var vel fram á kvöldið þegar síðustu ferðalangarnir skiluðu sér heim, vonandi allir þokkalega sáttir við daginn. Umsjónarmenn ferðarinnar, þau Ósk Helgdóttir varaformaður Framsýnar og Jónas Kristjánsson formaður Þingiðnar og yfirgrillmeistari kunna Rúnari Óskarssyni og einstaklega skemmtilegum þátttakendum í „sumarferðinni sem varð að haustlitaferð“ bestu þakkir fyrir ánægjulega samfylgd.

Þau stóðu vaktina og hafa fengið mikið lof fyrir fararstjórnina, þetta eru þau Ósk Helgadóttir og Jónas Kristjánsson. Stéttarfélögin þakka þeim fyrir vel unninn störf í þágu félaganna. Þá ber að geta þess að Hörður Jónasson tók forsíðumyndina.