Allir á völlinn í boði Framsýnar – frábær árangur hjá okkar liði

Næstkomandi sunnudag 8. september spila stelpurnar í meistaraflokki Völsungs í knattspyrnu sinn síðasta leik í sumar.  Leikurinn verður á Húsavíkurvelli og munu þær spila gegn Leikni Reykjavík.

Sumarið hefur verið frábært hjá meistaraflokki kvenna. Liðið er taplaust og eru langefstar á toppi deildarinnar.  Fyrir þremur vikum tryggðu þær sér Íslandsmeistaratitilinn í 2. deild kvenna og munu spila í 1. deild næsta sumar.

Eftir leikinn á sunnudaginn munu þær fá bikarinn afhentan og verður mikið um að vera á vellinum. Leikurinn hefst kl. 12.00 og frítt verður í boði Framsýnar stéttarfélags.

Fyrir leik eða milli ellefu og tólf verða hoppukastalar, andlitsmálning og grillaðar pylsur í boði.

Yngstu iðkendur Völsungs munu leiða leikmenn inn á völlinn og sláarkeppni verður í hálfleik.

Á meðan á leik stendur verða seldar vöfflur í vallarhúsinu.

Framsýn hvetjur alla til að mæta og fagna þessum glæsilega árangri með stelpunum.  Þess má geta að þetta er í fyrsta skipti sem meistaraflokkur kvenna hjá Völsungi fer upp um deild.

Láttu sjá þig á vellinum.😊