Á formannafundi Starfsgreinasambandsins 7. ágúst síðastliðinn var gerð eftirfarandi samþykkt:
Formannafundur SGS 8. ágúst samþykkir að fela framkvæmdastjóra að senda Landssambandi veiðifélaga erindi og óski eftir upplýsingum um kjarasamninga, aðbúnað og önnur atriði sem varða starfsfólk í veiðihúsum landsins og réttindi þess.
Svar barst til SGS dagsett 22. ágúst, en þar sem segir m.a.
,,Minnt er á að Landssamband veiðifélaga hefur ekki afskipti af rekstri eða störfum veiðifélaganna, þau starfa sjálfstætt, þó skylduaðild sé að Landssambandinu, sem annast sameiginleg hagsmunamál, s.s. umfjöllun um lög og reglur og samskipti við opinbera aðila.“
Þetta svar LV veldur SGS miklum vonbrigðum og að sjá það sett fram með svo skýrum hætti að aðbúnaður og kjör starfsfólks í veiðihúsum allt í kringum landið komi þeim ekki við með neinum hætti. Áhugaleysi LV er verulegt umhugsunarefni. Þó að veiðifélög innan LV leigi í einhverjum tilfellum út veiði í ám og rekstur veiðihúsa til annarra aðila geta þau ekki firrt sig ábyrgð með þessum hætti.
Starfsgreinasambandið mun halda áfram að reyna að afla áreiðanlegra upplýsinga um kjör í veiðihúsum og skorar á veiðifélög í landinu að tryggja að þessi mál séu í lagi. Jafnframt hvetur SGS Landssamband veiðifélaga til þess að breyta sínum starfsháttum og standa undir því að afla upplýsinga um að aðildarfélög þess hagi rekstri sínum í samræmi við lög og kjarasamninga.
Bréf SGS til LV
Svar LV til SGS