Skútustaðahreppur svaraði erindi Framsýnar í gær en félagið fór fram á að sveitarfélagið greiddi starfsmönnum eingreiðslu kr. 105.000 þar sem kjarasamningar hafa ekki tekist líkt og öðrum starfsmönnum sveitarfélagsins sem eru með lausa samninga. Eins og sjá má hér að neðan hafnaði sveitarfélagið beiðni Framsýnar sem eru mikil vonbrigði þar sem með því er sveitarfélagið að mismuna starfsmönnum eftir aðld að stéttarfélagi sem er þeim til skammar. Hér má sjá svar sveitarfélagsins:
„Vegna erindis Framsýnar stéttarfélags 2. júlí 2019 og svo ítrekun á því erindi þann 7. ágúst s.l. þá hafnar sveitarfélagið óskum Framsýnar sem fram koma í bréfinu.
Eins og þér er kunnugt um hafa kjaraviðræður staðið yfir við Samband íslenskra sveitarfélaga frá því í febrúar 2019 án niðurstöðu. Mikið ber á milli og vísaði Starfsgreinasamband Íslands, sem fer með samningsumboð Framsýnar, deilunni til ríkissáttasemjara þann 28. maí s.l.
Samband íslenskra sveitarfélaga fer með fullnaðarumboð til kjarasamningagerðar fyrir hönd sveitarfélaganna í landinu en rétt er að árétta að sveitarfélagið Skútustaðahreppur veitti samninganefndinni fullnaðarumboðið í desember s.l. Í því felst að sveitarfélaginu er óheimilt að hafa afskipti af kjarasamningagerð og skuldbindur sig til að hlíta markmiðum og stefnu sambandsins í kjaramálum og þeim kjarasamningum sem sambandið gerir fyrir þess hönd í öllum atriðum, með staðfestingu stjórnar sambandsins.
Það er einlæg von sveitarfélagsins Skútustaðahrepps að samningsaðilar nái saman og leysi þá deilu sem uppi er sem fyrst.“