Mikið fjölmenni á hrútasýningu

Fjáreigendafélag Húsavíkur stóð fyrir hrútasýningu á Mærudögum sem er árviss viðburður á bæjarhátíð Húsvíkinga. Keppnin fór fram á föstudagskvöldinu eftir setningu Mærudaga á hafnarstéttinni. Töluverður fjöldi fólks fylgdist með keppninni sem fór vel fram enda mikill metnaður meðal fjáreigenda á Húsavík að sigra keppnina og hafa umgjörðina sem besta. Eftir sýninguna söng Karlakórinn Hreimur nokkur lög fyrir gesti.

Sex magnaðir hrútar voru til sýnis og kepptu um hver væri glæsilegasti hrúturinn í flokki yngri og eldri hrúta. Skemmst er frá því að segja að kynbóta hrútar frá fjárræktarbúinu Grobbholti á Húsavík sigruðu bæði í flokki yngri og eldri hrúta og fékk búið veglegan bikar í verðlaun.

Eldri flokkur: Bassi besti sem er ættaður frá Bassastöðum á Stöndum

Yngri flokkur/veturgamlir hrútar: Horni sem er ættaður úr Grobbholti

Stórbændurnir, Sigurður Ágúst Þórarinsson úr Skarðaborg og Guðmundur Ágúst Jónsson úr Fagraneskoti voru yfirdómarar og kynnir kvöldsins var Kristján Þór Magnússon sveitarstjóri Norðurþings. Skrásetjari, Sveinbjörn Lund frá Miðtúni á Sléttu. Sveinbjörn sá til þess að allir dómar væru rétt skráðir á þar til gerð blöð.

Til viðbótar voru tvær konur fengnar til að velja fallegasta punginn og andlitsfallið á þeim hrútum sem tóku þátt í keppninni. Þetta voru þær Guðný J. Grímsdóttir úr Reykjadal og Pálína Halldórsdóttir af Tjörnesinu. Þær fóru á kostum og enduðu með því að velja Horna úr Grobbholti stæðilegasta hrútinn enda þykir hann fjallmyndarlegur og með einstakan pung til undaneldis.