Reiði út í Samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga

Undanfarna mánuði hefur Starfsgreinasamband Íslands (SGS), ásamt Eflingu stéttarfélagi, átt í kjarasamningsviðræðum við Samband íslenskra sveitarfélaga vegna félagsmanna sinna sem vinna hjá sveitarfélögum, öðrum en Reykjavíkurborg. Framsýn á aðild að þessum viðræðum fyrir félagsmenn sem starfa hjá sveitarfélögum í Þingeyjarsýslum.

Það er skemmst frá því að segja að viðræðurnar hafa gengið bæði hægt og illa. Sérstaklega steytir á í lífeyrismálum en sveitarfélögin hafa ekki staðið við fyrirheit um að jafna lífeyrisréttindi milli félagsmanna BSRB og félagsmanna SGS og Eflingar innan ASÍ.

Samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga hefur nú þegar samið við einstök sambönd og stéttarfélög um að þeir félagsmenn sem starfa hjá sveitarfélögunum, skuli fá greiddar 105.000 kr., m.v. fullt starf, þann 1. ágúst nk. sem greiðslu inn á væntanlegan samning. Þegar SGS og Efling kröfðust þess að félagsmenn þeirra hjá sveitafélögunum fengju líka umrædda greiðslu var því alfarið hafnað af hálfu samninganefndar sveitafélaga með þeim rökum að SGS og Efling væru búin að vísa kjaradeilunni til ríkissáttasemjara.

Það er með öllu ólíðandi. Það er samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga til vansa að skilja sína lægst launuðu starfsmenn eftir eina úti í kuldanum. Starfsgreinasamband Íslands, Efling og Framsýn trúa því ekki fyrr en á reynir, að sveitarstjórnarmenn hyggist koma svona fram við sitt frábæra starfsfólk.

Starfsgreinasambandið, Efling og Framsýn skora á sveitarfélögin að semja við SGS og Eflingu um sömu greiðslur og aðrir munu fá þann 1. ágúst nk. eða taka að öðrum kosti sjálfstæða ákvörðun um að greiða sínu fólki inn á væntanlegan kjarasamning, til jafns við annað starfsfólk.

Framsýn skorar á sveitarfélög að greiða starfsmönnum eingreiðslu meðan samningar hafa ekki tekist. Í því sambandi hefur Framsýn skrifað öllum sveitarfélögum á félagssvæðinu og stjórn Hvamms heimili aldraðra bréf þar sem þess er krafist að sveitarfélögin mismuni ekki starfsmönnum eftir aðild að stéttarfélögum, slíkt sé siðlaust og ólíðandi með öllu.

Samskonar bréf og þetta sem fór á Norðurþing fór einnig til Skútustaðahrepps, Þingeyjarsveitar, Tjörneshrepps og stjórnar Hvamms, heimili aldraðra.

Norðurþing
Hr. Kristján Þór Magnússon
Ketilsbraut 7-9
640 Húsavík 

Húsavík 2. júlí 2019 

Varðar stöðuna í kjaraviðræðum SGS og Sambands íslenskra sveitarfélaga

Framsýn stéttarfélag vill vekja athygli á þeirri stöðu sem nú ríkir í samningamálum félagsmanna sem starfa hjá sveitarfélögum í Þingeyjarsýslum.

Viðræður hafa staðið yfir við Samband íslenskra sveitarfélaga frá því í febrúar 2019, án árangurs.

Mikið ber á milli og vísaði Starfsgreinasamband Íslands, sem fer með samningsumboð Framsýnar, deilunni til ríkissáttasemjara þann 28. maí sl. Frá þeim tíma hafa verið haldnir tveir samningafundir sem ekki hafa skilað tilætluðum árangri, deilan er því í hörðum hnút. Næsti fundur í deilunni hefur verið boðaður hjá ríkissáttasemjara þann 21. ágúst nk.

Samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga hefur að undanförnu samið við önnur sambönd og stéttarfélög um frestun viðræðna og friðarskyldu til 15. september. Samið hefur verið við þessa aðila um eingreiðslu/innágreiðslu upp á kr. 105.000 miðað við fullt starf. Ríkissáttasemjari hafði milligöngu fyrir Starfsgreinasambandið, hvort slíkt tilboð stæði ekki félagsmönnum aðildarfélaga sambandsins einnig til boða. Formaður samninganefndar sveitarfélaganna neitaði því þar sem Starfsgreinasambandið væri búið að vísa deilunni til Ríkissáttasemjara.

Miðað við þessa undarlegu afstöðu er ljóst að félagsmenn innan aðildarfélaga Starfsgreina-sambandsins verða þeir einu af starfsmönnum sveitarfélaga sem ekki fá þessa umræddu eingreiðslu meðan ósamið er. Það mun kalla á megna óánægju starfsmanna.

Það er von Framsýnar að forráðamenn sveitarfélaga í Þingeyjarsýslum sjái hag í því að hafa starfsmenn sína ánægða, ekki síst þar sem mismunun sem þessi er sveitarfélögunum ekki til framdráttar og mun einungis efla barráttuandann í þeirri kjarabaráttu sem fram undan er.

Því fer Framsýn þess á leit við sveitarfélögin á félagssvæðinu og Hvamm heimili aldraðra að þau greiði starfsmönnum sem starfa eftir kjarasamningi Starfsgreinasambands Íslands slíka innágreiðslu þann 1. ágúst nk. það er að upphæð kr. 105.000 m.v. fullt starf þann 1. júní 2019 og hlutfallslega fyrir lægra starfshlutfall.

Þess er óskað að erindi þessu verði svarað fyrir 11. júlí 2019.

Frekari upplýsingar gefur undirritaður.

Virðingarfyllst
Fh. Framsýnar stéttarfélags 

____________________________________

Aðalsteinn Árni Baldursson

Samrit:
Sveitarfélög á félagssvæði Framsýnar stéttarfélags
Stjórn Hvamms heimili aldraðra