90.000 króna hækkun á samningstímanum
Samkvæmt samningi SA og verkalýðshreyfingarinnar nema hreinar launahækkanir þeirra sem starfa á töxtum 90 þúsund krónum í fjórum hækkunum yfir samningstímann, en almenn hækkun mánaðarlauna er nokkru lægri, eða 68.000 krónur. Til viðbótar þessu kemur 26.000 krónu eingreiðsla í byrjun maí á þessu ári.
30 prósenta hækkun lægstu launa
Flöt krónutöluhækkunin veldur því að þau sem lægst hafa launin hækka hlutfallslega mest, eða um 30 prósent á samningstímanum. Lágmarkslaun verða 317.000 frá og með 1. apríl en fara í 368.000 í ársbyrjun 2022.
Einnig er kveðið á um enn meiri hækkanir í takt við betri afkomu fyrirtækja og hagvöxt í þjóðfélaginu. Þetta, segja fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar, eru nýmæli sem marka tímamót í kjarasamningagerð. Einnig er opnað fyrir möguleikann á að stytta almenna vinnuviku niður í 36 klukkustundir.
Ríkisstjórnin lofar skattalækkunum
Eitt og annað er í samningnum sem ætlað er að auka ráðstöfunartekjur launafólks og vera þannig ígildi launahækkana. Enn fleira af þeim toga er að finna í áðurnefndum Lífskjarasamningi ríkisstjórnarinnar og aðila vinnumargaðarins. Í honum boðar ríkisstjórnin margvíslegar aðgerðir sem metnar eru til um það bil áttatíu milljarða króna á samningstímabilinu.
Þar á meðal eru fyrirheit um 12 mánaða fæðingarorlof og hærri barnabætur, þriggja þrepa skattkerfi sem tryggja á 10.000 króna skattalækkun til hinna lægst launuðu á mánuði.
Verðtrygging og húsnæðismál vega þungt
Einnig er kveðið á um breytingar á lögum um verðtryggingu. Þar vegur tvennt þyngst: Banna á verðtryggingu á lán til skemmri tíma en tíu ára og lengri en 25 ára frá og með næstu áramótum, og leita leiða til að taka fasteignaverð út úr vísitölu neysluverðs. Loks eru gefin fyrirheit um víðtækar aðgerðir í húsnæðismálum og uppbyggingu félagslega húsnæðiskerfisins.
Ekki var annað að heyra á samningsaðilum og fulltrúum ríkisstjórnarinnar í gærkvöld en að almenn ánægja ríkti með niðurstöðuna, sem sögð er koma sér best fyrir láglaunafólk og ungar barnafjölskyldur.