Yfirlýsing frá ASÍ -Óvissan um WOW

Þrátt fyrir umrótið í kringum flugfélagið WOW er ekki tilefni til annars en að halda ótrauð áfram kjaraviðræðum á grunni kröfugerða aðildarfélaga Alþýðusambands Íslands. Til að forða frekara tjóni er skynsamlegt og allra hagur að klára kjarasamninga sem fyrst og ábyrgðahluti að tefja þær viðræður sem eru í gangi.

Rekstarerfiðleikar WOW hafa þegar haft bein áhrif á kjaraviðræður sem nú hefur verið frestað tvo daga í röð vegna óvissu um afdrif félagsins. Að sjálfsögðu hefur verkalýðshreyfingin áhyggjur af stöðunni enda munu hundruð manna missa vinnuna ef WOW fer í þrot, þar af fjölmargir félagsmenn í stéttarfélögum innan Alþýðusambandsins. Verkalýðshreyfingin mun að sjálfsögðu standa við bakið á félagsmönnum ef þeir missa vinnuna og/eða fá ekki laun sín greidd.

Hvernig sem árar lenda fyrirtæki í rekstrarörðugleikum. Þess vegna hafa verkalýðfélög, atvinnurekendur og hið opinbera sett á fót stofnanir til að leysa úr stöðunni, tryggja afkomu launafólks og aðstoða það þegar vindar blása í efnahagslífinu.

Að þessu sögðu er rétt að vara við því að mála myndina of dökkum litum. Falli WOW eru enn um 25 flugfélög sem fljúga til og frá landinu. Rekstur WOW hefur dregist mikið saman á síðustu mánuðum sem sést best á fækkun í flugflota félagsins. Þá hefur óvissa um framtíð félagsins undanfarið hálft ár vafalaust komið harkalega niður á farmiðasölu þess. Spár um horfur í ferðaþjónustunni hafa þegar tekið mið af þessu. Það er því rétt að vara við heimsendaspám sem ýmsir hafa dregið upp síðustu daga, m.a. til að koma höggi á verkalýðshreyfinguna og hennar kröfur og tefja þannig yfirstandandi kjaraviðræður.

Þó hægt hafi á í efnahagslífinu eftir fádæma uppgang á liðnum árum er ekkert tilefni til örvæntingar vegna erfiðleika í rekstri eins fyrirtækis. Áfram er spáð hagvexti næstu ár, atvinnuástand er almennt gott og staðan í fjármálum ríkisins gefur hinu opinbera fulla möguleika á að beita skynsamlegri hagstjórn til að mæta stöðunni.

Setið og beðið í Karphúsinu eftir tillögum Samtaka atvinnulífsins um launabreytingar til handa verkafólki í landinu. Myndina tók formaður Framsýnar sem situr með sínum félögum í Kaprhúsinu um þessar mundir.