Sprenging í komum flutningaskipa

Ljóst er að verksmiðja PCC á Bakka hefur haft mjög jákvæð áhrif á atvinnulífið á svæðinu ekki síst þar sem ferðaþjónustan hefur verið að gefa aðeins eftir en vonandi nær hún sér sem fyrst aftur á strik. Það er ekki bara að um 140 manns starfi á Bakka heldur hafa skapast fjölmörg afleidd störf á ýmsum sviðum atvinnulífsins. Þá má geta þess að sprenging hefur orðið í komum flutningaskipa til Húsavíkur. Árið 2013 komu 3 flutningaskip til Húsavíkur en árið 2018 komu 64 flutningaskip til hafnar á Húsavík. Samkvæmt upplýsingum frá Húsavíkurhöfn er reiknað með frekari aukningu á þessu ári eða um 80 flutningaskipum. Flestar komur flutningaskipa tengjast starfsemi PCC á Bakka.

Yfir sama tímabil hefur komum skemmtiferðaskipa einnig fjölgað. Árið 2013 komu 6 skemmtiferðaskip til Húsavíkur en árið 2018 komu 41 skemmtiferðaskip til Húsavíkur. Á árinu 2019 er reiknað með heldur færri skemmtiferðarskipum eða um 30 skipum. Á árinu 2020 er síðan spáð að skemmtiferðaskipum fari aftur fjölgandi en þegar hafa 33 skemmtiferðaskip boðað komu sína og það mun stærri skip en komið hafa til Húsavíkur áður. Í því sambandi má geta þess að von er á skipi sem er 231 metrar að lengd og um 45.000 brúttó tonn auk skipa sem eru heldur minni en samt stór. Ekki er ólíklegt að opnun Dettifossvegar með bundnu slitlagi eigi eftir að fjölga skipakomum til Húsavíkur enn frekar enda opnast þá einn fallegasti hringur landsins hvað náttúrufegurð varðar og þá skemmir ekki fyrir að fallegasta fólkið á Íslandi býr í Þingeyjarsýslum. Það verður því mikið að sjá fyrir erlenda ferðamenn sem hingað koma með skemmtiferðaskipum eða eftir öðrum leiðum þegar nýr og glæsilegur vegur opnast yfir öræfin milli Mývatnssveitar og Kelduhverfis.

Cargo Cruise Samtals
2013 3 6 9
2014 4 7 11
2015 27 14 41
2016 37 20 57
2017 72 33 105
2018 64 41 105
2019 80 30 110 Áætlun

Áhugaverðar upplýsingar. Alls komu 9 skip til Húsavíkur árið 2013. Á árinu 2019 eru áætlaðar 110 skipakomur til Húsavíkur.

Hér má sjá þróunina á skipakomum til Húsavíkur í súluriti.

Ekki er ólíklegt að skemmtiferðaskipum komi til með að fjölga enn frekar á næstu árum, ekki síst með tilkomu nýja Dettifossvegarins sem verður með bundnu slitlagi í stað gamla vegarins sem oft á tíðum hefur ekki verið ökufær venjulegum bílum.

Mörg dæmi eru um að skip hafi þurft að bíða eftir því að komast að bryggju á Húsavík vegna umferðar skipa um höfnina með vörur og ferðamenn.

Selfoss að losa og lesta á Húsavík. Meðan biðu tvö önnur skip eftir því að komast að bryggju.

Unnið hefur verið að því að klára Dettifossveginn með hléum undanfarin ár. Margir eru farnir að bíða eftir því að verkið klárist sem mun án efa hafa mjög góð áhrif á ferðþjónustuna í Þingeyjarsýslum og fjölga komum skemmtiferðaskipa til Húsavíkur.

Einn fallegasti foss í heimi, svo einfallt er það, Dettifoss.