Samstaða á félagsfundi Framsýnar

Framsýn stéttarfélag stóð fyrir félagsfundi um kjaramál í dag. Fyrir fundinum lá tillaga um að félagið afturkallaði samningsumboðið frá Starfsgreinasambandi Íslands og vísaði deilunni til ríkissáttasemjara. Í ljósi atburðarásar dagsins var tillaga þess efnis dregin til baka þar sem viðræðunefnd Starfsgreinasambandsins samþykkti fyrr í dag að vísa kjaradeilunni til ríkissáttasemjara en Framsýn er aðili að Starfsgreinasambandinu.

Fundurinn var mjög góður og hiti var í fundarmönnum, ekki síst vegna þeirrar miklu misskiptingar sem þrífst í þjóðfélaginu, tilboðs SA um launahækkanir og tillagna stjórnvalda um skattkerfisbreytingar. Þar sem færðin í Þingeyjarsýslum er ekki með besta móti um þessar mundir stóð félagsmönnum Framsýnar utan Húsavíkur að taka fundinn í gegnum síma og nýttu menn sér það. Eftir líflegan fund var eftirfarandi ályktun samþykkt samhljóða.

„Framsýn stéttarfélag lýsir yfir miklum vonbrigðum með þær skattkerfisbreytingar sem ríkisstjórnin hefur lagt fram sem innlegg inn í yfirstandandi kjaraviðræður aðildarfélaga Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins.

Framsýn hafði vænst þess að tillögur stjórnvalda kæmu þeim lægst launuðu best, enda afar mikilvægt að auka ráðstöfunartekjur þeirra umfram aðra hópa launamanna er búa við mun betri kjör.

Í stað þess að svigrúm til skattalækkana sé notað til að koma til móts við þá hópa sem skrapa botninn í tekjum virðist það einlægur vilji ríkistjórnarinnar að það gagnist öllum, ekki síst þeim sem taka árslaun verkafólks á einum mánuði. Til að kóróna vitleysuna er ætlunin að frysta hækkun á persónuafslætti í þrjú ár. Félagsmenn Framsýnar mótmæla þessum vinnubrögðum.

Framsýn stéttarfélag skorar á stjórnvöld og Samtök atvinnulífsins að láta af þeim hroka sem endurspeglast í tillögum þeirra er varðar skattamál, velferðarmál og launahækkanir til lausnar kjaradeilunni. Vatnsgusurnar eru heldur kaldar sem ráðamenn þjóðarinnar senda verkafólki þessa dagana. Er það ekki öfugsnúið að bankastjórar ríkisbankana njóti svo mikilla launahækkana að þeir telji jafnvel ástæðu til að skila þeim að hluta, skuli nærast á brjósti þeirrar sömu ríkisstjórnar og setur hóflegar kröfur launafólks upp sem ógnun við efnahagslegan stöðugleika.

Miðað við þá stöðu sem uppi er í dag er afar mikilvægt að aðildarfélög Starfsgreinasambands Íslands, Landssambands íslenskra verslunarmanna og iðnaðarmannafélögin innan Alþýðusambands Íslands standi saman í yfirstandandi kjaraviðræðum við Samtök atvinnulífsins. Samstaðan hefur í gegnum tíðina verið það afl sem fært hefur verkafólki bestu kjarabæturnar.“