Það var þungt hljóð í fundarmönnum á aðalfundi Deildar verslunar- og skrifstofufólks Framsýnar sem fram fór í gærkvöldi vegna frétta um sturlaðar hækkanir til bankastjóra Landsbankans. Landssamband íslenskra verslunarmanna fer með samningsumboð Framsýnar er viðkemur verslunar- og skrifstofufólki innan félagsins. Ljóst er að mikil reiði er út í þá misskiptingu sem þrífst í þjóðfélaginu og endurspeglast í launahækkunum til bankastjórans á sama tíma og ákveðnir leiðarahöfundar vara við kröfum verkalýðshreyfingarinnar um að lægstu laun hækki upp í um 400.000 krónur á mánuði. Því fylgi óðaverðbólga og upplausn í íslensku þjóðfélagi.
Í lok fundar í gær og eftir góðar umræður um kjara- og efnahagsmál samþykkti fundurinn að senda frá sér svohljóðandi ályktun um stöðu mála um kjaramál og ákvörðun bankaráðs Landsbankans að hækka yfirmann bankans langt umfram allt sem eðlilegt getur talist.
Ályktun
„Aðalfundur Deildar verslunar- og skrifstofufólks innan Framsýnar telur löngu tímabært að vísa kjaradeilu Landssambands íslenskra verslunarmanna og Samtaka atvinnulífsins til ríkissáttasemjara.
Svo virðist sem lítið sem ekkert sé að gerast í kjaraviðræðum aðila annað en að ræða breytingar á vinnutilhögun með niðurfellingu á neysluhléum sem félagsmönnum Framsýnar hugnast ekki.
Í ljósi frétta um ofurhækkanir til bankastjóra Landsbankans er mikilvægt að LÍV endurskoði framlagða kröfugerð sambandsins gagnvart Samtökum atvinnulífsins. Ný kröfugerð taki mið af því svigrúmi sem bankaráð Landsbankans telur vera til staðar, svigrúm sem virðist hafa farið algjörlega fram hjá Seðlabankastjóra, sem varað hefur við kröfum verkalýðshreyfingarinnar.
Á sama tíma og almenningur í landinu býr við okurvexti telur bankaráð Landsbankans eðlilegt og sanngjarnt að hækka laun bankastjórans þessi launahækkun uppá 82% ógni ekki stöðugleikanum, eða valdi óðaverðbólgu að ógleymdu hinu margfræga höfrungahlaupi.sem flokkast undir sturlaðar launahækkanir.
Frá 1. júlí 2017 til 1. apríl 2018 hafa laun bankastjóra Landsbankans hækkað úr kr. 2.089.000 í kr. 3.800.000. Það gerir hækkun um rúmar 1,7 milljónir á mánuði, eða rétt tæp 82% á þessu tíu mánaða tímabili.
Í ljósi þessara tíðinda verður fróðlegt að fylgjast með hvernig Seðlabankastjóri, fjármálaráðherra og leiðarahöfundar Fréttablaðsins og Morgunblaðsins bregðast við. Landsbankinn er að mestu í eigu íslenska ríkisins og þá hafa leiðarahöfundar Fréttablaðsins kallað forystumenn í verkalýðshreyfingunni öfgamenn fyrir það eitt að fylgja eftir kröfum tugþúsunda félagsmanna um bætt kjör, það er að þeir þurfi ekki að búa við fátæktarmörk öllu lengur, það er innan við kr. 300.000 í mánaðarlauni.
Enn og aftur kallar Framsýn eftir jöfnuði og réttlæti í þjóðfélaginu. Í landi eins og Íslandi á enginn að þurfa að líða skort eða búa við það hlutskipti að geta ekki búið í húsnæði á viðráðanlegum kjörum. Annað verður aldrei liðið!“
Á aðalfundi Deildar verslunar- og skrifstofufólks var kjörin ný stjórn. Hana skipa; Jónína Hermannsdóttir formaður, Trausti Aðalsteinsson varaformaður, Karl Hreiðarsson ritari og meðstjórnendur Anna Brynjarsdóttir og Kristbjörg Vala Kristjánsdóttir.