Samþykkt að afturkalla samningsumboðið verði ekki kominn skriður á samningaviðræður í byrjun janúar

Á baráttufundi sem Framsýn boðaði til í dag með stjórn félagsins, trúnaðarráði, samninganefnd, trúnaðarmönnum og stjórn Framsýnar-ung var samþykkt að félagið sendi frá sér eftirfarandi yfirlýsingu um stöðu yfirstandandi kjaraviðræðna við Samtök atvinnulífsins. Mikil óánægja kom fram á fundinum með stöðu mála og að ekki hefði náðst samstaða innan aðildarfélaga Starfsgreinasambands Íslands að vísa deilunni til ríkissáttasemjara fyrir jól.

Fundarmenn voru á einu máli um að veita formanni Framsýnar fullt umboð til að draga samningsumboðið til baka frá Starfsgreinasambandi Íslands komist ekki skriður á kjaraviðræður í byrjun janúar eða Starfsgreinasambandið verði ekki þá þegar búið að vísa deilunni til ríkissáttasemjara.

Yfirlýsing
-Vegna yfirstandandi kjaraviðræðna SGS og SA-

 „Framsýn stéttarfélag kallar eftir ábyrgð Samtaka atvinnulífsins vegna yfirstandandi kjaraviðræðna samtakanna og Starfsgreinasambands Íslands.

Gegn vilja Framsýnar samþykkti meirihluti aðildarfélaga Alþýðusambands Íslands að segja ekki upp kjarasamningum við Samtök atvinnulífsins í febrúar 2018 þrátt fyrir að forsendur samninga væru brostnar.

 Á sama tíma lýstu Samtök atvinnulífsins því yfir að mikilvægt væri að hefja viðræður strax með það að markmiði að klára gerð kjarasamninga fyrir áramót. Því miður hafa samtökin ekki staðið við fyrri yfirlýsingar og lítill vilji virðist vera til þess að ganga frá kjarasamningi á nótum kröfugerðar Starfsgreinasambandsins sem byggir á sanngirni og opinberum viðmiðum varðandi framfærsluþörf einstaklinga.

 Ekki síst í ljósi þessa hafa þegar tvö af aðildarfélögum Starfsgreinasambandsins dregið samningsumboðið til baka og vísað kjaradeilunni til ríkissáttasemjara. Það er skoðun Framsýnar að Starfsgreinasamband Íslands eigi að vísa deilunni þegar í stað til ríkissáttasemjara. Fyrir liggur að atvinnulífið sparar sér um 4 milljarða á mánuði meðan ekki er samið. Á sama tíma eru félagsmenn Starfsgreinasambandsins samningslausir og verða af launahækkunum 1. janúar 2019.

Framsýn felur formanni að draga samningsumboð félagsins til baka frá Starfsgreinasambandi Íslands komist ekki skriður á kjaraviðræður í byrjun janúar eða Starfsgreinasambandið verði ekki þegar búið að vísa deilunni til ríkissáttasemjara.“