Samningur við Erni endurnýjaður

Framsýn hefur gengið frá nýjum samningi við Flugfélagið Erni um afsláttarkjör fyrir félagsmenn sem fljúga milli Húsavíkur og Reykjavíkur. Samningurinn felur í sér að Framsýn í umboði aðildarfélaga Skrifstofu stéttarfélaganna kaupir 4800 flugmiða sem jafngildir um árs notkun félagsmanna á flugmiðum þar sem um 400 félagsmenn fljúga í hverjum mánuði á stéttarfélagsfargjaldinu að meðaltali. Vegna verðlagsbreytinga og aukins kostnaðar í rekstri flugfélagsins náðist ekki að viðhalda óbreyttu verði sem verið hefur frá árinu 2015. Þess í stað hækka miðarnir til félagsmanna í kr. 10.300 per ferð með niðurgreiðslum félaganna. Nýju miðarnir koma í sölu 1. janúar 2019.

Valgeir Páll Guðmundsson flýgur reglulega með Flugfélaginu Erni milli Húsavíkur og Reykjavíkur. Valli er alltaf hress ekki síst með kjörin sem honum og öðrum félagsmönnum stéttarfélaganna bjóðast, ferðist þeir með flugi milli landshluta með Erni.