Við þurfum að brýna vopnin og bíta í skjaldarrendur

Á jólafundi Framsýnar síðasta laugardag gerði Ósk Helgadóttir varaformaður árið 2018 upp í starfi félagsins. Við gefum Ósk orðið:

Félagar!

Nú fer enn eitt árið að renna sitt skeið á enda. Þá er rétt að taka aðeins stöðuna, hvarfla augunum yfir það sem liðið er, en leiða jafnframt hugann að áframhaldandi verkum. Árið 2018 markar tímamót i sögu Framsýnar stéttarfélags, en 10 ár eru liðin síðan það var stofnað upp úr nokkrum félögum í Þingeyjarsýslum.

Það væri synd að segja að lognmolla hafi einkennt starf Framsýnar það sem af er ári. Strax í upphafi árs var það umræðan um kjarasamninga á almennum vinnumarkaði sem átti sviðið. Fyrsta ályktun félagsins á árinu var hvatning til aðildarfélaga ASÍ að nýta sér ákvæði í kjarasamningum og segja þeim upp þegar samningar komu til endurskoðunar í febrúar. Þá var enda ljóst að forsendur samninga voru brostnar. Framsýn talaði afar skýrt fyrir uppsögn kjarasamninga og það voru því mikil vonbrigði að aflokinni atkvæðagreiðslu, sem fram fór á formannafundi ASÍ í febrúar að svo varð ekki. Naumur meirihluti formannanna kaus að bíða vetrarins með að sækja kjarabætur fyrir sitt fólk og fara þá fram með festu. Nú er sá tími runninn upp og ætti ekki að vera nokkuð til fyrirstöðu að herða nú sóknina og sækja fast fram.

Almennt verða kjarasamningar sem Framsýn á aðild að í gegnum landssamböndin lausir nú um áramótin. Undirbúningsvinna við mótun kröfugerðar vegna væntanlegra kjaraviðræðna við okkar viðsemjendur hófst strax í byrjun árs. Sú vinna er langt komin, enda markmiðið að ganga frá nýjum kjarasamningi fyrir áramót.

Mikil gróska hefur einkennt atvinnulífið á Mið-Norðurlandi undanfarin ár í mestu iðnaðaruppbyggingu sem um getur í sögu Norðurlands. Stór uppbyggingarverkefni hafa staðið yfir og í tengslum við þær framkvæmdir hafa um 2000 manns komið tímabundið inn á atvinnusvæði Framsýnar, það er til viðbótar við það vinnuafl sem fyrir var. Það er við byggingu kísilmálmverksmiðjunnar á Bakka, við jarðvarmavirkjunina á Þeistarreykjum, við gerð Vaðlaheiðargangna og við þá miklu uppbyggingu sem verið hefur í ferðaþjónustunni hér á svæðinu. Auknum framkvæmdum hefur fylgt fjölþjóðlegt starfslið og félagsmenn Framsýnar á þessum tíma komið víða að úr heiminum. Það er gaman að geta þess að fólk frá 38 þjóðlöndum greiddi til félagsins á síðasta ári.

Við búum mjög vel að hafa frábært starfslið á skrifstofu stéttarfélaganna. Álag á þau hefur verið mikið á þessum umbrotatímum atvinnulífsins, en okkar fólk hefur leyst úr öllum þeim málum sem upp hafa komið, með miklum sóma.

Uppbyggingu áðurtalinna verkefna er nú að mestu lokið. Á Þeistareykjum malar nú 90 MW gufuaflsvirkjun, sem komin er í fullan rekstur og framleiðir að megninu til orku fyrir Kísilmálmverksmiðju PCC á Bakka, en verksmiðjan hóf starfsemi um miðbik ársins. Við teljum niður dagana þar til Vaðlaheiðargöng verða opnuð og líklega verða þau jólagjöfin í ár. Göngin munu koma til með að styrkja samfélögin, bæði austan og vestan Vaðlaheiðar t.d. með greiðari aðgangi að fjölbreyttari vinnumarkaði.

Það væri synd að segja að hjól atvinnulífsins hafi ekki snúist liðlega á árinu og fjölbreytileiki þess verið með allra mesta móti. Atvinnuleysi hefur ekki verið teljandi á þeim svæðum sem mesti uppgangurinn hefur náð til, en hætt er við að þær tölur geti hækkað eitthvað þegar líður á veturinn.

Við skulum heldur ekki alveg gleyma okkur í hamingju yfir auknum atvinnutækifærum, staðan í þeim málum er hreint ekki góð í öllum byggðalögum Þingeyjarsýslna. Þar nefni ég þær byggðir sem nær eingöngu hafa haft afkomu sína að sjávarútvegi og landbúnaði. Atvinnugreinum sem hafa til lengri tíma haldið í okkur lífinu, en eiga nú í vök að verjast. Það er meðal annars hlutverk stéttarfélags að verja þau samfélög, að hafa skoðun á hverning við byggjum landið og hvernig við skiptum gæðunum.

Á árinu minntumst við stofnunar Verkakvennafélagsins Vonar með veglegum hætti, en 28. apríl voru liðin 100 ár frá stofnun félagsins. Þann dag blésum við til fagnaðar í Menningarmiðstöð Þingeyinga og buðum til okkar góðum gestum. Þar fór fram vönduð dagskrá í tali og tónum og borið var fram bakkelsi að hætti formæðranna. Þá var opnuð sýning á ljósmyndum af verkakonum við störf á starfstíma Vonar. Sérstakt afmælisblað Framsýnar var gefið út í tilefni tímamótanna og út kom ljóðabók með völdum ljóðum eftir Björgu Pétursdóttur, konuna sem fyrst kom fram með hugmyndir af stofnun baráttusamtaka fyrir alþýðukonur. Bókin ber nafnið Tvennir tímar. Í Árbók Þingeyinga 2018 mun starfsemi Verkakvennafélagsins verða gerð ítarleg skil, en bókin kemur út í lok næsta árs.

Framsýn stóð fyrir fjölmennri samkomu í „Höllinni“ á baráttudegi verkalýðsins þann 1. maí . Um 600 manns sóttu hátíðina, sem að þessu sinni var tileinkuð aldarminningu Verkakvennafélagsins Vonar. Framsýn tók að venju þátt í heiðrun sjómanna á Húsavík á sjómannadaginn og eins og undanfarin ár heimsóttu fulltrúar félagsins Raufarhafnarbúa í tilefni sjómannadagsins og buðu bæjarbúum upp á kaffi og tertur. Stéttarfélögin í Þingeyjarsýslum slóu saman í trúnaðarmannanámskeið í upphafi árs. Tókst námskeiðið afar vel og er það fjölmennasta trúnaðarmannanámskeið sem félögin hafa haldið.

Stjórn og trúnaðarráð Framsýnar, ásamt formönnum Þingiðnar og Starfsmannafélags Húsavíkur brugðu sér til Gdansk í Póllandi nú í haust. Tilgangur ferðarinnar var að heimsækja pólsku verkalýðshreyfinguna Solidarnosc og efla með því tengslin á milli félaganna. Tekið var á móti hópnum með kostum og kynjum og heppnaðist ferðin afar vel. Forvígismenn Solidarnosc töldu að nauðsynlegt væri að efla tengsl milli verkalýðshreyfinga landanna tveggja, enda um 18.000 Pólverjar búsettir á Íslandi um þessar mundir, eða um 5 % þjóðarinnar. Ferðir sem þessar fara fulltrúar Framsýnar á eigin vegum, en áður hefur hópurinn heimsótt verkalýðsfélög í Færeyjum, Danmörku, Noregi, Svíþjóð og Finnlandi.

Vegna mikillar eftirspurnar fjárfesti Framsýn í fjórðu íbúðinni í Þorrasölum í Kópavogi á árinu, en íbúðirnar þar hafa verið afar vel nýttar. Fjárhagstaða félagsins er góð um þessar mundir og á aðalfundi Framsýnar sem haldinn var í júní síðastliðnum var samþykkt að hækka styrki til félagsmanna, suma þeirra verulega. Félagsmenn Framsýnar hafa góðan aðgang að starfsmenntastyrkjum og orlofskostir félagsins voru vel nýttir af félagsmönnum Framsýnar og fjölskyldum þeirra í sumar sem leið. Framsýn leggur mikið upp úr því að félagsmenn sem láta af störfum á vinnumarkaði vegna aldurs eða örorku haldi áfram réttindum í félaginu og segja má að Framsýn hafi farið fyrir þeim félögum sem leggja mikið upp úr þessum þætti, enda haft fjárhagslega burði til þess. Því miður er það svo að í allt of mörgum tilfellum tapa félagsmenn viðkomandi stéttarfélaga réttindum við starfslok.

Það er margt sem stendur til boða fyrir okkar fólk , en að öllu því ólöstuðu bera ódýru flugfargjöldin með flugfélaginu Erni þar líklega hæst. Margir fullyrða að þar sé um að ræða eina allra mestu kjarabót sem Framsýn hefur samið um fyrir félagsmenn sína.

Félagið okkar er öflugt og ég held að það sé ekkert mont þó ég segi að Framsýn sé einn af máttarstólpum Þingeysks samfélags og styðji það dyggilega. Það gerir félagið með beinum hætti í formi ýmis konar styrkja, með öflugum stuðningi við æskulýðs- og íþróttastarfsemi í héraðinu, með styrkjum til menningarmála, auk þess að standa fyrir fundum og viðburðum af ýmsu tagi. Framsýn hefur ályktað um ýmis málefni það sem af er ári. Það er líf í félaginu okkar og við látum rödd okkar heyrast.

Ég nefndi hér í upphafi að vinna væri hafin við gerð kjarasamninga. Það er gaman að geta þess að fyrsta sinn í sögu Starfsgreinasambands Íslands ganga öll aðildarfélög þess saman að samningaborðinu. Á 43. þingi Alþýðusambands Íslands sem haldið var í lok október blésu hressandi vindar og þar gerðust einnig sögulegir atburðir. Kona var kjörin forseti sambandsins í fyrsta sinn í 102 ára sögu þess, fulltrúar róttækari afla í hreyfingunni voru kjörnir í margar helstu trúnaðarstöður innan sambandsins og fólk af erlendum uppruna, starfandi á Íslandi átti rödd á þinginu. En það sem vakti sérstaka athygli og var ákaflega ánægjulegt var hlutur unga fólksins, sem mætti sterkt til leiks á þetta þing. Þar er án efa að skila sér kröftugt ungliðastarf SGS – félaganna. Framsýn á í því starfi öfluga fulltrúa sem láta sig málin varða og vekja sannarlega vonir um kröftuga verkalýðsbaráttu framtíðar.

Mikil endurnýjun varð á stjórn og trúnaðarráði Framsýnar á árinu og bjóðum við nýja félaga, ásamt nýjum trúnaðarmönnum sérstaklega velkomna til starfa. Þið verðið ugglaust góð viðbót við alla þá frábæru einstaklinga sem sinna trúnaðarstörfum fyrir félagið okkar. Að vera virkur í starfi stéttarfélags krefst áhuga og fórnfýsi og það eru ekki allir fúsir til þeirra starfa. Styrkur Framsýnar liggur í mannauði ykkar kæru félagar, sem fórnið tíma ykkar og orku í að sinna því sem þið eruð kosin til eða ráðin til að gera. Og mig langar til að nota hér tækifærið og þakka ykkur fyrir allt ykkar óeigingjarna starf í þágu félagsins.

Hér að framan hef ég tæpt á nokkrum atriðum úr starfi Framsýnar það sem af er ári og drepið á því allra helsta. En við skulum ekki dvelja of lengi í fortíðinni, nú er vert við líta fram á veginn. Við skulum halda áfram ótrauð, okkar góða starfi, með hækkandi sól á nýju ári, en eins og segir í kvæðinu:„Hvað þá verður veit nú enginn og vandi er um slíkt að spá“.

Kæru vinir. Framundan gætu verið erfiðir kjaraviðræður og þá mun reyna á styrk okkar. Við, fólkið í félögunum þurfum að láta okkur málin varða til að forystufólk okkar fái þann stuðning sem skyldi. Það þurfa að nást mikilvægar kjarabætur og þá er það samstaðan sem er lykilatriði. Það mun reyna á samstöðu SGS – félaganna í viðræðum við atvinnurekendur. Það mun reyna á fögur fyrirheit enn einnar nýrrar ríkisstjórnar Íslands, sem setti sér þá stefnu í húsnæðismálum að tryggja húsnæðisöryggi allra landsmanna. Það mun einnig reyna á fyrirheit hennar um uppbyggingu heilbrigðiskerfis, um samgöngumál, um atvinnu og byggðamál. Loforð um að styðja við þá sem standa hvað höllustum fæti í okkar annars ágæta þjóðfélagi. Við tölum þar um verkafólk, láglaunafólk, um aldraða og öryrkja.

Nú þurfum við sjálf að brýna vopnin og bíta í skjaldarrendur. Við skulum koma blóðinu á hreyfingu með því að minnast loka útspils Kjararáðs til hollvina sinna. Krefjast bættra kjara. Það er ekki í boði að að þiggja einu sinni enn ölmusu úr auðvaldslúkum, brauðmolarnir eru búnir! Við krefjumst réttlætis! Verum Framsýn í orðsins fyllstu merkingu, stöndum sem einn maður við bakið á nýkjörinni, baráttuglaðri verkalýðsforystu og veitum þeim allan þann styrk sem okkur er unnt.

Gleðileg jól

Ósk Helgadóttir varaformaður Framsýnar stéttarfélags