Veðrið var eins og best var á kosið í Fnjóskadalnum í gær

 

Veðrið var eins og best var á kosið í Fnjóskadalnum í gær, vægt frost og ákaflega kyrrlátt og fagurt um að litast. Það var líka gestkvæmt í Vaglaskógi, en þar fór fram hinn árlegi jólamarkaður Skógræktarinnar á Vöglum. Hægt var að versla jólatré, greinar, arinvið og fleira úr skóginum, auk þess sem handverksfólk úr Þingeyjarsveit og nágrenni bauð varning sinn til sölu. Var þar margt fagurra muna að sjá, auk þess sem boðið var upp á ýmiss konar góðgæti fyrir munn og maga. Fjöldi gesta lagði leið sína á jólamarkaðinn, margir versluðu jólagjafirnar, völdu jólatréð (sem er ekki alltaf sérviskulaust), eða komu bara til að sýna sig og sjá aðra. Nemendur í 9. og 10. bekk Stórutjarnaskóla sáu um kaffisölu í Furulundi, til ágóða fyrir ferðasjóð. Það var svo ilmur af brennandi birki, snarkandi eldinum og marrinu í snjónum sem fangaði hug gesta í Vaglaskógi og rammaði inn jólaskapið. Sannkölluð jólastemming á Vöglum, dagurinn var einkar vel heppnaður og á starfsfólk Skógræktarinnar bestu þakkir skildar fyrir einstaka gestrisni og þægilegheit í alla staði. Hér eru myndir frá deginum.