ASÍ ályktar um aðgerðir í húsnæðis- og skattamálum

Alþýðusamband Íslands skorar á stjórnvöld að hraða allri vinnu er lýtur að kröfum verkalýðshreyfingarinnar í komandi kjaraviðræðum. Ef aðgerða- og skilningsleysið sem hefur einkennt viðbrögð stjórnvalda heldur áfram er ljóst að erfitt mun reynast fyrir aðila vinnumarkaðarins að ganga frá nýjum kjarasamningi. Það er aðeins rétt rúmur mánuður þangað til kjarasamningar renna út.
Stjórnvöld hafa ekki lagt neitt handfast fram til lausnar þeim gríðarlega vanda sem blasir við í húsnæðismálum. Þá vantar tillögur í skattamálum sem er þó lykillinn að kröfum um aukinn jöfnuð.
Það hefur verið ljóst árum saman að gera þarf þjóðarátak í húsnæðismálum. Fjöldi fólks er fast í viðjum okurleigu, húsnæðisóöryggis, það getur ekki keypt og margir búa í við óviðunandi aðstæður. Þessi staða er m.a. tilkomin vegna aðgerðarleysis stjórnvalda og sveitastjórna. Og hefur verkalýðshreyfingin þó í langan tíma bent á vandann. Það er orðið sjálfstætt úrlausnarefni að laga húsnæðismarkaðinn, enda liggur fyrir að þær kjarabætur sem samið hefur verið um síðustu ár hafa brunnið upp á báli húsnæðiskostnaðar. Það þarf róttækar breytingar á kerfinu þannig að hagsmunir launafólks og heimila verði teknir fram yfir hagsmuni fjármagnseigenda.
Breyting á skattkerfinu er mikilvægur áfangi á þeirri vegferð að vinda ofan af þeirri stóru skattatilfærslu sem orðið hefur síðustu ár þar sem láglaunahópar hafa verið látnir borga reikninginn fyrir ríkasta hluta þjóðarinnar. Hér þarf breytta forgangsröð. Það er kominn tími til að hagsmunir lág-og millitekjufólks verði hafðir að leiðarljósi með breytingum á skattkerfinu og hækkun á barna-og vaxtabótakerfinu.