Framsýn færir Hvammi gjöf til minningar um Hafliða Jósteinsson

Fyrir helgina færði Framsýn stéttarfélag Hvammi heimili aldraðra á Húsavík gjöf til minningar um Hafliða Jósteinsson sem lengi kom að störfum fyrir stéttarfélögin á Húsavík. Hafliði var mjög virkur í starfi stéttarfélaganna á Húsavík og tók sæti í varastjórn Verslunarmannafélags Húsavíkur 28. febrúar 1966 en til stofnfundar félagsins var boðað 6. september 1965. Hann sat lengi í stjórn og trúnaðarmannaráði Verslunarmannafélags Húsavíkur, þar af sem formaður um tíma. Auk þessa var hann í trúnaðarstörfum fyrir Landssamband íslenskra verslunarmanna. Við sameiningu stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum árið 2008 tók Hafliði sæti í stjórn deildar- verslunar og skrifstofufólks innan Framsýnar. Hann sat í stjórn deildarinnar til ársins 2011. Við það tækifæri var Hafliða þakkað áratuga starf hans að málefnum verslunar- og skrifstofufólks innan Framsýnar og Verslunarmannafélags Húsavíkur með viðurkenningarskjali sem bar yfirheitið „Framúrskarandi félagsmaður í Framsýn.“

Það voru þau Hildur Sveinbjörnsdóttir yfirhjúkrunarfræðingur, Pétur Helgi Pétursson forstöðumaður fasteigna og Sigurveig Arnardóttir trúnaðarmaður starfsmanna og stjórnarmaður í Framsýn sem veittu gjöfinni viðtöku fyrir hönd Hvamms. Með þeim á myndinni er formaður Framsýnar, Aðalsteinn Árni Baldursson. Um er að ræða Soundbar/hljóðstöng og DVD spilara til að spila tónlist. Eins og kunnugt er var Hafliði mikill tónlistarmaður og því er gjöfin vel við hæfi en Hafliði starfaði síðustu æfiárin á Hvammi og spilaði og söng reglulega fyrir heimilsfólkið á Hvammi. Hljóðstöngin nýtist einnig vel við að magna upp hljóð úr sjónvarpinu fyrir heimilismenn á Hvammi sem sumir hverjir hafa tapað heyrn.

Hljóðstöngin er þegar komin upp og samkvæmt heimildum Framsýnar er mikil ánægja með gjöfina meðal heimilsmanna á Hvammi heimili aldraðra.