Flugfreyja í flugi milli Húsavíkur og Reykjavíkur

Ein skemmtilegasta frétt vikunnar er frásögn af forystugimbur sem fór með áætlunarflugi frá Húsavík til Reykjavíkur síðasta sunnudag. Hugsanlega er þetta í fyrsta skiptið sem gimbur fer fljúgandi innanlands með áætlunarflugi. Vitað er að sauðfé hefur áður verið flutt milli landshluta með flugi í þar til gerðum flugvélum sem hafa verið útbúnar sérstaklega fyrir slíka gripaflutninga.

Það var Guðni Ágústsson sem stóð að flutningnum í samráði við Flugfélagið Erni og Fjáreigendafélag Húsavíkur sem sá um að sækja forystugimbrina til Skúla Ragnarssonar stórbónda á Ytra Álandi í Þistilfirði. Gimbrin var vistuð í bílskúr formanns Fjáreigendafélagsins meðan hún beið eftir flugi daginn eftir. Flutningarnir gengu vel og skilaði forystugimbrin sér til Reykjavíkur þar sem eigandinn Guðni Ágústsson og fjölmiðlar tóku fagnandi á móti henni. Guðna varð að orði; „Þetta er gert forystukindinni til heiðurs. Hún hefur mannsvit í veðrum, leiðir hjörðina og bóndann heim“. Við komuna til Reykjavíkur fékk gimbrin nafnið Flugfreyja. Forystugimbrin verður til heimilis á Stóru- Reykjum í Flóa.

Fjölmiðlar hafa fjallað um flutninginn á forystugimbrinni milli landshluta.

Flugfreyja var í góðu yfirlæti hjá formanni Fjáreigendafélags Húsavíkur meðan hún beið eftir flugi frá Húsavík til Reykjavíkur.