Vinsamlegur fundur með yfirmönnum PCC

Fulltrúar frá stéttarfélögunum Framsýn og Þingiðn áttu vinsamlegan fund með forstarfsmönnum PCC BakkiSilicon fyrir helgina. Farið var yfir stöðuna og samstarf aðila en nokkur fjölmiðlaumræða hefur verið um starfsemi fyrirtækisins á Bakka, ekki síst starfsmannaveltuna og samskipti á vinnustaðnum. Aðilar voru sammála um að efla samskiptin enn frekar enda hagsmunir beggja aðila að starfsemin gangi vel á Bakka og starfsmenn búi við viðunandi kjör og vinnuaðstæður. Þá ber þess að geta að kjaraviðræður hefjast í byrjun nóvember um nýjan kjarasamning fyrir starfsmenn. Núverandi samningur rennur út um áramótin. Um þessar mundir er unnið að því að móta kröfugerðina með því að funda með starfsmönnum. Þar sem um mjög fjölmennan vinnustað er um að ræða þarf að halda fjóra fundi með starfsmönnum. Fundirnir fara fram í dag, mánudag. Síðan tekur við frágangur á kröfugerðinni áður en hún verður lögð fyrir Samtök atvinnulífsins í byrjun nóvember.