Á fundi stjórnar og trúnaðarráðs Framsýnar á þriðjudaginn kom fram megn óánægja með ákvörðun VÍS að loka þjónustuskrifstofu tryggingafélagsins á Húsavík. Töldu fundarmenn þetta vera slæma þróun og verri þjónustu við viðskiptavini. Formaður Framsýnar upplýsti að starfsmenn tryggingafélagsins yrðu áfram við störf á Húsavík við stafræna þjónustu við viðskiptavini. Þrír starfsmenn hafa starfað hjá VÍS á Húsavík. Hann sagðist hafa fundað með starfsmönnum og farið yfir málið með þeim.
Þess má geta að VÍS tilkynnti í síðasta mánuði að ákveðið hafi verið að sameina þjónustuskrifstofur fyrirtækisins víðs vegar um landið í sex skrifstofur; á Selfossi, Egilsstöðum, Akureyri, Sauðárkróki, Ísafirði og Reykjavík. Skrifstofurnar voru áður þrettán. Á vef fyrirtækisins segir að þetta sé gert í samræmi við nýja framtíðarsýn fyrirtækisins um að verða stafrænt þjónustufyrirtæki. Breytingarnar tóku gildi 1. október síðastliðinn.