VÍS lokar þjónustuskrifstofum

VÍS hefur ákveðið að loka samanlagt átta skrifstofum í kjölfar endurskipulagningar fyrirtækisins þar sem aukin áherslu verður lögð á á einfaldara fyrirkomulag þjónustu og stafrænar lausnir. Tilkynnt var um skipulagsbreytingarnar fyrir helgina.

Af þeim átta skrifstofum á landsvísu sem verður lokað verða sex sameinaðar öðrum, en tveimur alveg lokað. Samkvæmt upplýsingum frá VÍS sem komið hafa fram í fjölmiðlum hefur þremur starfsmönnum verið sagt upp í kjölfar skipulagsbreytinganna auk þess sem þrettán verktakasamningum var sagt upp. Breytingarnar taka gildi 1. október næstkomandi og verða sameinaðar þjónustuskrifstofur staðsettar á Selfossi, Egilsstöðum, Akureyri, Sauðárkróki, Ísafirði og Reykjavík.

Skrifstofan á Húsavík sameinast skrifstofu VÍS á Akureyri

Fyrir liggur að skrifstofa VÍS á Húsavík verður sameinuð skrifstofu VÍS á Akureyri. Skrifstofur á Akranesi, Borgarnesi og Keflavík sameinast skrifstofu í Reykjavík. Skrifstofa á Reyðarfirði sameinast Egilsstöðum og sameinast skrifstofa á Hvolsvelli skrifstofu á Selfossi. Ekki er annað vitað en að starfsmönnum VÍS á Húsavík verði boðinn áframhaldandi vinna hjá tryggingafélaginu við starfræna þjónustu en í dag starfa þrír starfsmenn hjá félaginu.

Að sögn formanns Framsýnar, Aðalsteins Árna Baldurssonar, hefði hann viljað sjá VÍS halda uppi sambærilegri þjónustu á Húsavík og verið hefur enda mikill mannauður til staðar hjá tryggingafélaginu á Húsavík. Greinilegt sé að viðskiptavinir séu ekki sáttir við ákvörðun félagsins að loka þjónustuskrifstofunni á Húsavík. Þá vilji hann senda þau skilaboð til stjórnenda VÍS að þeir noti tækifærið, gangi skipulagsbreytingar eftir, og efli starfræna þjónustu við viðskiptavini VÍS á landsvísu með því að horfa til Húsavíkur með aukna þjónustu á því sviði.