Spjallað yfir hádegisverði

Fiskeldi Samherja í Öxarfirði hefur vaxið hratt síðustu ár enda mikill metnaður til staðar hjá forsvarsmönnum fyrirtækisins að auka eldið enn frekar. Formaður Framsýnar átti góða stund með starfsmönnum og forsvarsmönnum fyrirtækisins fyrir helgina þar sem farið var yfir framleiðsluna og áform fyrirtækisins um frekari stækkun á komandi árum. Fyrirtækið er með laxeldi í kerjum upp á landi. Á þriðja tug starfsmanna starfar við eldið auk þess sem fyrirtækið leggur mikið upp úr því að skapa frekari atvinnu með því að leita til verktaka á svæðinu með ákveðna verkþætti sem þarf að vinna og tengjast starfsemi fiskeldisins. Að loknum hádegisverði var boðið upp á skoðunarferð um athafnasvæðið sem fer stækkandi með hverju árinu. Ljóst er að fiskeldið skiptir verulega miklu máli fyrir íbúa og samfélagið við Öxarfjörð.