Molar frá aðalfundi – samþykkt að skoða stækkun á félagssvæðinu

Skipulagsmál voru til umræðu á aðalfundi Framsýnar á mánudaginn. Eftir góðar umræður var samþykkt að gera breytingar á 4. og 6. grein félagslaga er varðar aðild að félaginu og kjörgengi. Sjá má breytingarnar neðar í þessari frétt.

Þá var samþykkt að skoða útvíkkun á félagssvæði Framsýnar.

„Aðalfundurinn samþykkir að heimila stjórn og trúnaðarráði Framsýnar að vinna að stækkun félagssvæðisins, það er að félagssvæðið verði Norður- og Vesturland, það er frá Raufarhöfn að félagssvæði Verkalýðsfélags Akraness.“

4.grein
Aðild og aukaaðild

Sérhver starfsmaður getur sótt um inngöngu í félagið að uppfylltum eftirfarandi skilyrðum:

  1. a) Sé starfandi eftir þeim kjarasamningum sem félagið á aðild að.
  2. b) Verði 16 ára á því almanaksári, er hann eða hún sækir um inngöngu.
  3. c) Standi í óbættum sökum við önnur félög innan Alþýðusambands Íslands.
  4. d) Sé ekki atvinnurekandi eða hafi ráðandi stöðu vegna eignar- eða stjórnunaraðildar að því fyrirtæki eða stofnun sem hann vinnur hjá.

Nú telur stjórn og trúnaðarráð félagsins, að tekinn hafi verið í félagið einstaklingur sem ekki átti rétt til inngöngu, eða að viðkomandi hefur gefið rangar eða villandi upplýsingar um atvinnu sína eða annað, og missir þá viðkomandi þegar í stað skv. úrskurði stjórnar og trúnaðarráðs félagsins félagsréttindi og verður ekki tekinn inn í félagið fyrr en úr hefur verið bætt að fullu. Slíkum úrskurði er heimilt að visa til miðstjórnar ASÍ.

6.grein
Réttindi félagsmanna
Réttindi fullgildra félagsmanna eru eftirfarandi:

  1. a) Málfrelsi, tillögu- og atkvæðisréttur á félagsfundum, kjörgengi til trúnaðarstarfa innan félagsins og þeirra heildarsamtaka, sem félagið á aðild að og réttur til að taka þátt í atkvæðagreiðslu um kjarasamninga, þá sem félagið á aðild að og viðkomandi félagsmaður vinnur eftir.
  2. b) Forgangsréttur til vinnu á félagssvæðinu til að vinna þau störf, sem kjarasamningar félagsins taka til og eftir þeim kjörum, sem kjarasamningar segja til um hverju sinni.
  3. c) Réttur til styrkja úr sjóðum félagsins í samræmi við það, sem nánar er ákveðið í reglugerðum þeirra.
  4. d) Réttur til afnota af orlofshúsum félagsins og öðrum sameiginlegum eignum, eftir því sem samþykktir og reglugerðir kveða á um.
  5. e) Réttur til að sækja námskeið á vegum félagsins eða þeirra samtaka, sem það er aðili að.
  6. f) Réttur til aðstoðar vegna vanefnda atvinnurekenda á kjarasamningum og til annarrar þeirrar þjónustu sem félagið veitir hverju sinni, þar með talið lögfræðiþjónustu.
  7. g) Réttur til lögfræðilegrar aðstoðar vegna bótamála í sambandi við vinnuslys eða atvinnusjúkdóma.
  8. h) Þrátt fyrir ákvæði a liðar, njóta ekki kjörgengis félagsmenn sem eru í stjórnunarstörfum innan fyrirtækja eða stofnana og þeir sem skráðir eru sem launamenn hjá eigin fyrirtæki og/eða ef maki þeirra eða annar nákominn telst hafa ráðandi stöðu eða verulegra hagsmuna að gæta innan þess sama fyrirtækis eða stofnunar.

Aukafélagar, sem ekki uppfylla ákvæði 4. greinar um fullgilda félagsmenn, hafa aðeins málfrelsi og tillögurétt um málefni félagsins, en njóta ekki annarra réttinda skv. a-lið þessarar greinar. Aukafélagar skulu njóta annarra réttinda skv. liðum b-g. Starfsmenn félagsins, starfsmenn og forystumenn þeirra heildarsamtaka, sem það á aðild að, skulu hafa málfrelsi og tillögurétt á fundum félagsins, þótt þeir séu ekki félagsmenn.