Stjórn VR samþykkti í gær, fimmtudaginn 24. maí 2018, eftirfarandi yfirlýsingu:
Alþýðusamband Íslands eru stærstu samtök launafólks á Íslandi.
Hlutverk sambandsins er skv. 3.gr. laga ASÍ eftirfarandi:
- Að hafa forystu í stéttarbaráttu launafólks, koma fram fyrir hönd aðildarfélaga í sameiginlegum málum gagnvart atvinnurekendum og stjórnvöldum, innanlands og á alþjóðavettvangi. Móta og samræma heildarstefnu samtakanna í atvinnu-, mennta-, umhverfis- og kjaramálum.
- Að samræma og tryggja framkvæmd þjónustu aðildarfélaganna við félagsmenn þeirra.
- Að standa að gerð kjarasamninga um sameiginleg mál sem aðildarsamtökin fela sambandinu skv. 9. gr.
- Framkvæmdir í þessu skyni annast aðildarfélögin sjálf, eða sambönd þeirra í umboði félaganna ásamt ársfundi og miðstjórn Alþýðusambandsins.
Hlutverk forseta ASÍ er þannig að stuðla að samvinnu og samstarfi milli aðildarsamtaka ASÍ. Til þess að svo megi verða þarf forsetinn að vera í góðu sambandi við fulltrúa aðildarsamtakanna og virða ólík sjónarmið, hlusta og vera tilbúinn að miðla málum.
Forsetinn á alltaf að taka málstað félagsmanna aðildarfélaga ASÍ og tryggja að hagsmunir þeirra séu efstir á blaði. Ábyrgð forseta ASÍ er fyrst og fremst gagnvart hinum almenna félagsmanni í verkalýðsfélögunum.
Við undirrituð teljum að forsetinn hafi ekki ræktað þetta meginhlutverk sitt. Þrátt fyrir skýra kröfu grasrótarinnar innan aðildarfélaga ASÍ um breyttar áherslur og róttækari verkalýðsbaráttu hefur forseti ASÍ kosið að sniðganga þær kröfur og þær breytingar sem orðið hafa í forystu verkalýðshreyfingarinnar og notað til þess rödd Alþýðusambandsins.
Forseti ASÍ nýtur því ekki trausts til að leiða viðræður við stjórnvöld eða Samtök atvinnulífsins fyrir okkar hönd og mun ekki tala í umboði okkar.
Stjórn VR