Framsýn hástökkvari SGS- félagsmönnum fjölgaði um 27,5%

Starfsgreinasamband Íslands tekur oft saman áhugaverðar upplýsingar um starfsemi aðildarfélaga sambandsins, þar á meðal Framsýnar.  Nýverið gerði sambandið athugun á kynjahlutföllum í aðildarfélögunum. Í gegnum tíðina hefur kynjahlutfallið hjá Framsýn nánast verið 50/50 karlar, konur. Nú ber svo við að þessi athugun leiðir í ljós að körlum hafi fjölgað verulega umfram konur í Framsýn. Hlutfallið er komið í að vera 38% konur og 62% karlar. Að sjálfsögðu eru skýringar á þessu. Framkvæmdirnar á svæðinu við uppbygginguna á Bakka, Þeistareykjum, við hótelbyggingar og Vaðlaheiðargöng hafa kallað á aukna atvinnuþáttöku karla. Væntanlega mun þetta jafnast töluvert á næsta ári þegar uppbyggingin hvað varðar þessi verkefni klárast að fullu.

Annað sem er jafnframt áhugavert í samantektinni er að félagsmönnum Framsýnar fjölgaði um 27,5% milli ára sem er met innan Starfsgreinasambands Íslands. Dæmi eru um að félagsmönnum aðildarfélaganna hafi fækkað milli ára. Samtals eru um 57.000 félagsmenn innan sambandsins og fjölgaði um 11% milli ára. Þannig að eins og oft áður er Framsýn hástökkvari stéttarfélaga innan SGS.