Flutningur frá Íslandi – hvað þarf að gera?

Hér á starfssvæði stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum og raunar á landinu öllu er mikill fjöldi erlends starfsfólks. Flestir eru að vinna við ferðaþjónustu eða við stóriðjuframkvæmdir. Þorri þessa fólks fer aftur frá Íslandi eftir mislanga dvöl á landinu en á þeim tíma hafa allir fengið íslenska kennitölu og flutt lögheimili sitt til Íslands tímabundið. Þegar kemur að því að yfirgefa landið er mikilvægt að standa rétt að málum til þess að lenda ekki í vandræðum síðar meir.
Rétt er að benda á þessa upptalningu Fjölmenningarseturs. Þessi listi er vel tæmandi yfir þau atriði sem þarf að huga að áður en erlent fólk kveður Fróna. Sumt af þessu á ekki við um alla eins og kemur fram á listanum.
Auðvitað er flókið fyrir erlent fólk að hafa sig í gegnum íslenskuna. Við hvetjum því atvinnurekendur til að hlaupa undir bagga með fólki og beina því í réttar áttir. Auðvitað er líka velkomið að koma við eða hafa samband við okkur á Skrifstofu stéttarfélaganna og fá leiðbeiningar.