Ósk Helgadóttir varaformaður fór yfir starf Framsýnar í stuttu máli á jólafundi félagsins um helgina. Stjórn og trúnaðarráð félagsins auk trúnaðarmanna, stjórnum deilda og starfsmanna stéttarfélaganna tóku þátt í fundinum. Hér má lesa ávarp varaformannsins:
Nú þegar árið er senn á enda er við hæfi að staldra aðeins við, líta um öxl yfir liðna mánuði, en freista þess jafnframt að hvarfla augum til komandi árs.
Árið 2016 kvaddi í skugga sjómannaverkfalls sem teygði langa fingur sína allt fram í febrúarmánuð. Verkfall er nokkuð sem er allra síðasti kostur, neyðarbrauð sem fæstir kjósa. Margir aðrir en sjómenn liðu fyrir ástandið, svo sem fiskvinnslufólk sem víða um land varð fyrir verulegum tekjumissi sökum hráefnisskorts.
Síðustu ár hefur verið rífandi uppgangur í atvinnulífi víðast hvar í Þingeyjarsýslum og því hefur lítið verið um atvinnuleysi. Ég gæti vissulega nefnt margt, eins og til dæmis gríðarlegan vöxt ferðaþjónustunnar, ég gæti nefnt hina nýju atvinnustarfsemi, sem er kísilmálmverksmiðja PCC á Bakka og þau mörgu afleiddu störf sem skapast hafa í kringum það verkefni. Hér hefur staðið yfir mesta iðnaðaruppbygging í sögu Norðurlands og hundruð manna verið störfum á Bakkasvæðinu og í kringum orkuuppbygginguna því samhliða á Þeistareykjum. Verktakar, verkamenn, iðnaðarmenn og sérfræðingar af öllum mögulegum þjóðernum. Álag hefur því verið mikið á starfsmenn skrifstofu stéttarfélaganna, en þau hafa staðið vaktina hér með miklum sóma, auknum framkvæmdum fylgir eðlilega að í fleiri horn þarf að líta.
Vaðlaheiðargöng munu væntanlega verða tekin í notkun seint á næsta ári, þau koma til með að greiða aðgang fólks á okkar atvinnusvæði að fjölbreyttari vinnumarkaði. Göngin annars vegar og uppbyggingin á Bakka hins vegar munu efla byggð í Þingeyjarsýslu og stuðla að samfelldu atvinnusvæði frá Eyjafirði og austur um.
En í öllum þessum hamagangi megum við samt ekki gleyma að hlúa að þeim atvinnugreinum sem hafa verið kjölfestan okkar. Það er sótt að landbúnaði og sjávarútvegi. Við skulum einnig hafa það í huga þó að töluverð fólksfjölgun hafi þegar orðið í kringum aðal atvinnusvæðið á Bakka, þá er staðan ekki þannig í öllum byggðarlögum Þingeyjarsýslna. Og um þau ber okkur að standa vörð.
Eitt af verkefnum okkar á komandi ári verður að minnast 100 ára afmælis verkakvennafélagsins Vonar, en það var stofnað af konum hér í bæ 28. apríl árið 1918. Við minnumst þessara tímamóta með ýmsum hætti, meðal annars með ljósmyndasýningu af konum við störf, og hugmyndin er að þær myndir sem valdar verða á sýninguna muni að henni lokinni prýða veggi í nýuppgerðu húsnæði okkar hér á efri hæðinni, en húsnæðið er að mestu í útleigu.
Annað verkefni sem komið er á koppinn tengt afmælinu er útgáfu bókar sem hefur að geyma ljóð eftir Björgu Pétursdóttur, en Björg var aðalhvatamaðurinn að stofnun félagsins.
Á stofnfundi Vonar var samþykkt að árstillagið yrði 1kr. og var það stofnfé að svokölluðum sjúkrasjóði sem eingöngu var notaður til að styrkja konur í veikindum. Sjóðurinn var látinn standa óhreyfður á vöxtum þar til hann var orðinn 1000 kr, þá mátti úthluta vöxtunum. Þessi samtryggingarsjóður Vonarkvenna átti eftir að létta undir á heimilum þar sem veikindi steðjuðu að og styrktu félagskonur sjóðurinn sinn með ýmsum hætti, s.s. tombólum og kartöflurækt.
Ég hóf þennan lestur minn á því að nefna sjómannaverkfallið. Sjómenn innan Framsýnar stóðu þar keikir sína vakt, 10 vikna verkfall tekur vissulega í pyngjuna, en okkar menn sóttu bætur í verkfallssjóð félagsins, og voru það almennt hærri greiðslur en önnur félög innan Sjómannasambands Íslands greiddu. Ég nefni þetta af því að við skulum halda því til haga að sjóðir félagsins hafa ekki orðið til að sjálfu sér. Eins og sjúkrasjóður Vonarkvenna hafa þeir sprottið af litlum efnum forvera okkar sem ávöxtuðu sitt fé með framsýni og dug og fólu okkur það til áframhaldandi varðveislu.
Hvað komandi ár ber í skauti sér veit víst enginn, en skulum horfa bjartsýn fram á veginn. Snemma næsta árs munum við hefja undirbúning að mótun kröfugerðar vegna væntanlegra kjaraviðræðna við okkar viðsemjendur, en kjarasamningar eru lausir á næsta ári.
Í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar gefur gefur meðal annars á að líta fyrirheit um bættar samgöngur, uppbyggingu heilbrigðiskerfis og styrkingu atvinnu – og byggðamála. Hvort saman fara orð og efndir á eftir að koma í ljós, en það er okkar hlutverk að standa um það vörð og fylgja málum eftir.
Ég held að ég ljúgi engu þegar ég segi að félagið okkar sé sterkt félag. Við eigum öfluga sjóði sem við getum sótt í á erfiðum tímum, góðan aðgang að starfsmenntastyrkjum, orlofskosti höfum við góða og samningurinn við flugfélagið Erni er ein mesta kjarabót sem Framsýn hefur samið um fyrir félagsmenn sína.
Já, við erum sterk. Framsýn veitir árlega fjölda styrkja beint inn í samfélagið, við erum bakhjarlar í æskulýðs– og íþróttastarfsemi í héraðinu, veitum styrki til menningarmála, stöndum fyrir fundum og viðburðum af ýmsum toga og ályktum um ýmis málefni. Við látum rödd okkar heyrast, erum stólpi í samfélaginu.
En mannauður er samt okkar mesti styrkur, það er sá styrkur er liggur í þeim öflugu einstaklingum sem vinna fyrir félagið okkar. Fólki sem er tilbúið að takast á við krefjandi störf, fórna tíma sínum og sinna því sem það er kosið til eða ráðið til að starfa. Og styrkur okkar til framtíðar er það unga fólk sem kýs að starfa fyrir félagið okkar. Kraftmiklir einstaklingar í Framsýn – ung hafa látið að sér kveða og haldist það starf áfram öflugt er framtíð okkar félags björt.
Kæru vinir. Hafið þakkir fyrir ykkar óeigingjarna starf í þágu félagsmanna.