30. þing Landssambands íslenzkra verzlunarmanna var haldið á Akureyri 13. – 14. október sl. Rúmlega 80 fulltrúar aðildarfélaga LÍV hvaðanæva af landing sátu þingið sem haldið er annað hvert ár.
LÍV var stofnað 2. Júní 1957 og er því um sannkallað afmælisár að ræða. Þingið bar keim af afmælisári, brugðið var út af hefðbundinni dagskrá og þingfulltrúum boðið í menningarferð til Siglufjarðar þar sem þeir hlýddu á fyrirlestur um þá uppbyggingu sem orðið hefur á Siglufirði síðustu ár, heimsóttu Bátasafnið og höfðu síðan stutta viðdvöl í Kalda á Ársskógsströnd.
Á dagskrá þingsins voru m.a. húsnæðismál og kjaramál. Þar fluttu erindi BjörnTraustason framkvæmdastjóri Bjargs íbúðafélags og Henný Hinz deildarstjóri hagdeildar ASÍ en hún fór yfir horfur í efnahags- og kjaramálum.
Til kosninga kom við kjör formanns. Endurkjörinn formaður er Guðbrandur Einarsson, Verslunarmannafélagi Suðurnesja. Með honum í stjórn eru; Ragnar Þór Ingólfsson VR, Kristín María Björnsdóttir VR, Eiður Stefánsson, FVSA, Guðmundur Gils Einarsson VR, Svanhildur Þórsteinsdóttir VR og Hjörtur Geirmundsson Vfm. Skagafjarðar.
Fyrstu fjórir varamenn eru: Ólafur Gunnarsson VR, Jóna Matthíasdóttir Framsýn, Bryndís Kjartansdóttir VS og Bjarni Þór Sigurðsson VR
Þingfulltrúi Framsýnar var Jóna Matthíasdóttir formaður deildar verslunar- og skrifstofufólks innan Framsýnar.
Hún var kjörin sem 2. varamaður í stjórn LÍV og situr áfram í kjörnefnd til næstu 2ja ára. Einnig starfaði hún sem annar þingritari á þinginu.