Alþýðusamband Norðurlands 70 ára – Hákon Hákonar með fróðlegt erindi um söguna

Á þingi AN var því fagnað að 70 ár eru liðin frá stofnun sambandsins. Hákon Hákonarson sem þekkir vel til tók saman söguna og gerði grein fyrir henni á þinginu á Illugastöðum. Hér má lesa erindi Hákons.

Alþýðusamband Norðurlands varð 70 ára fyrr á þessu ári. Það er við hæfi að fara nokkrum orðum um það sem gerst hefur á vettvangi þessa merka sambands á þessu tímabili. Engin leið er í þessu stutta erindi að fjalla ítarlega um málefnið, aðeins að nefna það helsta sem heimildir eru til um.

Stofnþing Alþýðusambands Norðurlands var haldið á Siglufirði dagana 17. til 19. maí 1947.

Til að öllu sem málið varðar sé til haga haldið er eðlilegt að minnast á að 26. apríl 1925 var stofnað samband verkalýðsfélaga á Norðurland sem hlaut nafnið Verkalýðssamband Norðurlands.  Á stofnfund þeirra samtaka mættu 11 fulltrúar frá fjórum verkalýðsfélögum á Akureyri og Siglufirði, átta félög víðsvegar á Norðurlandi bættust svo fljótlega við og síðan enn fleiri.  Með nokkrum sanni má segja að þetta samband hafi verið undanfari Alþýðusambands Norðurlands.

Í lögum Verkalýðssambands Norðurlands segir svo um meginhlutverk þess:

A Að koma á góðum samtökum í kaupgjaldsmálum meðal þeirra félaga sem í sambandinu eru, koma á samræmi á kauptaxta og efla samvinnu við að fylgja þeim fram.

B Að gangast fyrir stofnun nýrra verkalýðs- og jafnaðarmannafélaga.

C Að stuðla að því að koma í fulltrúastöður bæjar- og sveitarfélaga og ríkisins þeim mönnum einum saman, er fylgja jafnaðarstefnunni.

D Að fræða alþýðu manna um verkalýðshreyfinguna og jafnaðarstefnuna með fyrirlestrum, bóka- og blaðaútgáfu. Einkum skal sambandið vinna að útbreiðslu jafnaðarmannablaða, sem gefin eru út á Norðurlandi.

Alþýðusambandið og Alþýðuflokkurinn voru eitt og það sama á þessu tíma.

Í fundargerð stofnþingsins kennir margra þekktra  vandamála.  Vegna smæðar verkalýðsfélaganna var mönnum ljóst að vinnuveitendur komust upp með að virða ekki réttindi félagsmanna, sumstaðar höfðu ekki verið stofnuð verkalýðsfélög. Mikill fjöldi verkafólks streymdi til Siglufjarðar á sumrin til að vinna í síld og var gjarnan ráðið til vinnu án nokkurs tillits til þess hvað stóð í kjarasamningunum. Þá komu fram áhyggjur þingfulltrúa af innfluttu vinnuafli sem streymdi til ýmissa staða á Norðurlandi t.d. Siglufjarðar og Krossaness.

Á þessu stofnþingi var Erlingur Friðjónsson á Akureyri kosinn forseti sambandsins og sat hann til 1931, en þá tók við Einar Olgeirsson einnig frá Akureyri í eitt ár en þriðji og síðasti forseti sambandsins var Þóroddur Guðmundsson frá Siglufirði.

Sambandið starfaði af miklum krafti til að byrja með að hagsmunamálum félaga sinna allt fram til  1933 eða 1934, en  samtakamáttur Verkalýðssambands Norðurlands fór þá ört þverrandi vegna harðvítugra pólitískra átaka. Um miðjan fjórða áratuginn og raunar miklu lengur snerist starfsemi verkalýðsfélaganna að verulegu leyti um pólitísk átök milli krata og þeirra sem stóðu lengst til vinstri í hinu pólitíska litrófi íslenskra stjórnmála.

Þessi átök urðu því miður til þess að verkalýðsfélögin urðu alls ófær um að gegna hlutverkum sínum og gengu atvinnurekendur auðvitað á lagið og spiluðu á þetta upplausnarástand í samskiptum sínum við verkafólk. Þannig fór á tímabili á Akureyri og Siglufirði að bæði urðu til komma og kratafélög.  Ótrúlegt ástand.

Á Siglufirði stóð þetta þó ekki mjög lengi en á Akureyri í heilan áratug.

Þetta pólitíska fárviðri varð banabiti Verkalýðssambands Norðurlands og gufaði það hreinlega upp þegar svo var komið að ekki var samstaða um eitt eða neitt.

Eftir 1936  er þess lítið getið.

Síðan leið heil áratugur.  Á þeim tíma varð mönnum sífellt ljósara að við svo búið mætti ekki standa. Fólk yrði að nýta samtakamáttinn til að hafa áhrif á samfélagið og þar með lífskjör almennings á Norðurlandi. Ófært væri að forustumenn verkalýðsfélaganna eyddu öllum starfskröftum sínum í innbyrðis slagsmál.  Virða yrði mismunandi stjórnmálaskoðanir ef samstaða ætti að nást.  Samkomulag náðist m.a. um að hætta að tengja Alþýðusambandið við einn stjórnmálaflokk. Innan verkalýðssamtakanna skyldu allir vera jafn réttháir án tillits til stjórnmálaskoðana.

Þegar þessi niðurstaða var fengin var blásið til heljarmikillar ráðstefnu allra verkalýðsfélaga á Norðurlandi á Siglufirði þann 24. apríl 1946.

Mættir voru 31 fulltrúi frá 17 félögum. Ráðstefnan stóð í þrjá daga og tók til umfjöllunar fjöldann allan af málefnum sem snertu kjör alþýðufólks á Norðurlandi og gerði um þau ályktanir.

Má þar nefna að frá Sambandsmálanefnd ráðstefnunnar var samþykkt eftirfarandi tillaga:

Ráðstefna verkalýðsfélaga á Norðurlandi haldinn á Siglufirði dagana 24.-26. apríl 1946 telur ríka nauðsyn bera til að stofnað verði fjórðungssamband Alþýðusambands Íslands á Norðurlandi vegna eftirfarandi.

  1. Samræming kaups og kjara í fjórðungnum er orðin knýjandi nauðsyn og yrði auðveldari fyrir tilstuðlan slíks sambands.
  2. Fjórðungssamband myndi auka á kynningu og samstarf félaganna m.a. með því að hafa forustu um byggingu orlofs- eða félagsheimila í fjórðungnum, gangast fyrir kynningarferðum milli félaga, fræðslustarfsemi o.s.fv.

Ráðstefnan lýsir sig eindregið meðmælta því að sambandið verði stofnað á ofangreindum grundvelli.

Þetta var einróma samþykkt og eftirtaldir kosnir til að undirbúa stofnþingið.

Gunnar Jóhannsson og Gunnlaugur Hjálmarsson frá Siglufirði, Valdimar Pétursson frá Sauðárkróki, Kristinn Sigurðsson frá Ólafsfirði og Tryggvi Helgason frá Akureyri.

Framkvæmdanefndin vann síðan að samningu laga fyrir hið nýja samband ásamt öðrum atriðum sem nauðsynlegt var í tengslum við stofnun sambandsins og var boðað til stofnþings 17.-19. maí 1947 í Verkalýðshúsinu við Strandgötu á Akureyri.

Til stofnþingsins mættu 36 fulltrúar frá 17 félögum sem gerðust stofnendur Alþýðusambands Norðurlands. Auk þess var einn áheyrnarfulltrúi frá einu félagi.

Til stofnþingsins voru einnig mættir Hermann Guðmundsson forseti ASÍ, Jón Rafnsson framkvæmdastjóri  ASÍ og Guðmundur Vigfússon erindreki þess, einnig Sigurður Stefánsson frá Vestmannaeyjum sem átti sæti í stjórn Alþýðusambandsins.

Þingforsetar voru kjörnir Elísabet Eiríksdóttir Akureyri og Gunnar Jóhannsson frá Siglufirði þekkt baráttufólk  úr sögu verkalýðssamtaka á Norðurlandi.

Samþykkt var einróma að stofna sambandið og lög fyrir það samþykkt.

Á þinginu voru fjölmörg mál tekin til umræðu og ályktað um eftirfarandi málaflokka:

Um atvinnumál, um kaup og kjaramál, sjávarútvegsmál, menningar og fræðslumál, samræmingu síldarverksmiðjukjara, um birgðastöðvar. Þá var samþykkt tillaga þar sem varað var við því  að hafa síldarverksmiðjurnar til sýnis hvaða útlendingi sem hafa vildi og að lokum, lokun áfengisverslana á Akureyri og Siglufirði um sumartímann. Eftirtektarvert er hvað síldin kemur víða við í ályktunum verkalýðsfélaganna á þessum tíma.

Þá var samþykkt fjárhagsáætlun fyrir starfsárið upp á kr. 10.334 .- Til samanburðar hljóðaði fyrsta áætlun Verkalýðssambands Norðurlands upp á kr. 500.-

En þeir merku atburðir höfðu gerst að Alþýðusamband Norðurlands var orðið staðreynd og því von um betri og bjartari tíma fyrir norðlenska alþýðu.  Óhætt er að fullyrða að miklar vonir voru bundnar við hið nýja  samband.

Fyrsti forseti Alþýðusambands Norðurlands var kjörinn Tryggvi Helgason, varaforseti var kjörin Elísabet Eiríksdóttir, ritari Stefán Snæbjörnsson öll frá Akureyri.  Meðstjórnendur Björn Arngrímsson frá Dalvík og Björn Jónsson frá Akureyri.  Auk þeirra voru kjörin í sambandsstjórn Gunnar Jóhannsson og Ásta Ólafsdóttir frá Siglufirði, Sigursveinn D. Kristinsson frá Ólafsfirði, Hallgrímur Stefánsson frá Glerárþorpi, Geir Ásmundsson frá Húsavík og Guðrún Guðvarðardóttir frá Akureyri.

Þegar hér er komið sögu verður stiklað á stóru í sögu sambandsins. Tryggvi Helgason hafði verið kosinn forseti þess og sat hann í tuttugu ár eða til ársins 1967. Við tók Björn Jónsson og sat hann til 1973 þá tók Jón Ásgeirsson við í eitt kjörtímabil, eða 2 ár, þá kom til Jón Karsson og sat hann einnig í eitt tímabil, Hákon Hákonarson í tvö kjörtímabil.  Á sautjánda þingi sambandsins 1981 settist loks kona í formannssætið, Þóra Hjaltadóttir, sem gegndi  formennsku í tíu ár eða til ársins 1991.  Þá tók Kári Arnór Kárason , við í tvö ár og síðan eftirtaldir Guðmundur Ómar Guðmundsson,  Valdimar Guðmannsson,  Matthildur Sigurjónsdóttir, Aðalsteinn Baldursson, Konráð Alfreðsson,  Ásgerður Pálsdóttir, Einar Hjartarson, Kristbjörg Sigurðardóttir, Heimir Kristinsson, Hjördís Gunnarsdóttir, Eiður Stefánsson og síðan Ósk Helgadóttir sem er núverandi formaður. Allir framantaldir formenn sem komu á eftir Þóru Hjaltadóttur gegndu formennsku í eitt kjörtímabil eða tvö ár.

Það er örugglega ekki á neinn hallað þótt sagt sé að Tryggvi Helgason og Gunnar Jóhannsson hafi verið þeir sem mest unnu í að koma sambandinu á fót.  Tryggvi var einnig sá sem  dró vagninn í daglegri starfsemi sambandsins.  Hann var óþreytandi að ferðast um sambandssvæðið, hitta félögin, meta ástandið á hverjum stað og leggja fram tillögur til úrbóta til að tryggja stöðuga vinnu fyrir félagsmennina.  Oft voru settar á stofn atvinnumálanefndir á vegum hins opinbera m.a. fyrir tilstuðlan Tryggva og félaga sem hann sat þá gjarna í.

Þá gekkst Alþýðusamband Norðurlands oft fyrir atvinnumálaráðstefnum á svæðinu. Alþýðusambandið hafði veruleg afskipti af kjaramálum til að byrja með næstu áratugina eða allt þar til starfsgreinasamböndin komu til sögunnar, þá dró verulega úr starfsemi sambandsins á vettvangi kjara og atvinnumála. Þá er rétt að minnast þess hér að Alþýðusamband Norðurlands beitti sér fyrir fjölmörgum öðrum framfaramálum félagsmanna á starfstíma Tryggva Helgasonar og félaga hans.

Sumarið 1948 gekkst sambandið fyrir glæsilegu og gríðarlega fjölmennu  vormóti verkafólks á Norðurlandi.  Samkoman var haldin í Vaglaskógi.  Þá má nefna sameiningu verkalýðsfélaga á starfssvæðinu.  En með bættum samgöngum var ekki þörf fyrir verkalýðsfélag á hverjum stað.  Þá rak sambandið um tíma hagdeild til að fylgjast með vinnurannsóknum og útreikningum á flóknum launakerfum sem komu til skjalanna í tengslum við margskonar ákvæðis- og bónus fyrirkomulag launa.  Fyrsti starfsmaðurinn á þessu sviði var Ívar Baldursson og síðar Þóra Hjaltadóttir formaður sambandsins.  Þá beitti sambandið sér fyrir sameiningu margra smærri lífeyrissjóða á svæðinu í einn stóran og sterkan lífeyrissjóð.

Árið 1966 kaupir Alþýðusambandið jörðina Illugastaði Í Fnjóskadal af Sigurði O. Björnssyni fyrir kr. 300.000.- Miklar vangaveltur höfðu verið innan sambandsins um að festa kaup á hentugu og vel staðsettu jarðnæði til að hefja uppbyggingu á orlofshúsasvæði fyrir félögin á Norðurlandi.

Alþýðusambandið og síðan rekstrarfélagið hafa staðið fyrir umfangmikilli skógrækt á Illugastöðum.  Ekki liggja fyrir nákvæmar tölur um fjölda plantna sem hafa verið gróðursettar en milli þrjú- og fjögurhundruð þúsund plöntur hafa verið gróðursettar á jörðinni frá upphafi.  Illugastaðir eru nú aðili að Norðurlandsskógum.

1967 er samið við Tréverk h.f. á Dalvík um að byggja sumarhús á Illugastöðum og eru sex fyrstu húsin byggð og afhent um haustið.  Fjögur hús eru svo afhent 15. 6. 1968. Húsunum fjölgar svo hægt og bítandi fram til 1970 en þá voru síðustu húsin í efra hverfinu afhent.

Fyrsti umsjónarmaður með orlofsbyggðinni var Rósber G. Snædal frá 1968 til 1970 en þá tók Björn Gunnarsson við starfi umsjónarmanns.  Árið 1974 tóku hjónin Hlíf Guðmundsdóttir og Jón Þ. Óskarsson við umsjón á Illugastöðum og gegna því starfi enn í dag.  Ég tel að ekki sé á neinn hallað þó það sé undirstrikað hér að þau hjón hafa sinnt starfi sínu af þvílíkum metnaði og samviskusemi að einstakt má teljast.  Mikið lán fyrir okkur sem hlut eigum að máli hér á Illugastöðum að hafa fengið að njóta starfskrafta þessara frábæru hjóna.

Árið 1972 er hafin bygging Kjarnahúss á svæðinu og lokið við íbúð húsvarðar 1973.  Ekki tókst að ljúka við framkvæmdir við salinn í Kjarnahúsinu fyrr en 1981.  Stafaði það fyrst og fremst af fjármagnsskorti og þar spilaði inn í vandamál vegna þess að bygging og rekstur orlofshúsanna svo og eignarhald var allt á hendi Alþýðusambands Norðurlands.  En mörg stéttarfélög sem áttu hús á Illugastöðum voru ekki aðilar að sambandinu og töldu því með nokkrum sanni að þau félög hefðu takmarkaða aðkomu að rekstri og öllum tilfallandi kostnaði. Töldu þau félög að skilja yrði á milli reksturs Alþýðusambands Norðurlands og byggingu og rekstri orlofssvæðisins.  Um þetta var þrefað nokkuð og lokum varð samkomulag árið 1980 um að stofna Orlofsbyggðina Illugastaði sem sæi alfarið um allar framkvæmdir þ.m.t. allar nýbyggingar  og rekstur orlofssvæðisins.  Hið nýja félag gerði síðan samning við Alþýðusamband Norðurlands um afnot af jarðnæðinu og yfirtöku á mannvirkjum.  Óhætt er að fullyrða að þetta var skynsamleg ákvörðun sem leiddi til velfarnaðar fyrir alla aðila.

Jón Helgason formaður Einingar stýrði rekstrarfélaginu til að byrja með en Hákon Hákonarson tók fljótlega við formennsku í félaginu og gegndi því til ársins 2015 en þá tók Björn Snæbjörnsson við formennsku í félaginu og gegnir því enn.

Árið 1977 voru hafnar framkvæmdir við byggingu nýs tólf húsa  áfanga í svokölluðu neðra hverfi.  Samið var við Trésmiðjuna Rein um byggingaframkvæmdir og voru þessi tólf hús afhent á árunum 1978 og 1979.

Árið 1988 var á höndum hins nýja rekstrarfélags að semja við Trésmiðjuna Rein um byggingu sundlagar og tilheyrandi mannvirkja þ.e. heitra potta, búningsaðstöðu gufubaðs og mannhelda girðingu umhverfis mannvirkin.  Framkvæmdin tókst í alla staði mjög vel og tók einungis sextíu daga frá því fyrsta skóflustungan var tekin og þar til stjórnarmenn stungu sér til sunds í hinni nýju og glæsilegu sundlaug.  Árið 1999 er byrjað að breyta húsunum að innan. Árið 2001 er byggð vélageymsla, mikið framfaramál. Árið 2002 koma fyrstu nýju húsin á svæðið við útskrift á gömlu húsunum. Fleiri komu síðar þ.m.t nýtt og stærra hús Sjómannafélags Eyjafjarðar árið árið 2015.

Árið 2014 hófust framkvæmdir við klæðningu gömlu húsanna með rauðu stáli ásamt öðrum nauðsynlegum endurbótum.

Árið 2006 er raunar það árið sem mestu umskiptin verða á svæðinu í langan tíma þ.e. þegar hitaveita er lögð frá Reykjum til Grenivíkur. Þá rættist áratuga draumur þeirra sem Fnjóskadalinn byggja þ.e. að geta nýtt heita vatnið til að auka lífsgæði fólksins í dalnum fagra.  Óætt er að fullyrða að enginn einn atburður hefur haft jafn mikil og góð áhrif á aðstöðuna á Illugastöðum og þar með á líðan  okkar góðu gesta.  Mikill og góður hiti var nú ávallt til staðar í húsunum.  Stórir góðir heitir pottar við öll hús. Stórir og skjólgóðir sólpallar við öll hús og síðast en ekki síst voru allar akbrautir og gangstígar malbikaðir sem jók verulega á allt hreinlæti á svæðinu utan húss sem innan. Nú er verið að leggja lokahönd á skipulag fyrir 30 ný orlofshús á Illugastöðum.

Ágætu félagar, aftur að AN.

Ég hef stiklað á nokkrum af merkilegustu atburðum í sjötíu ára sögu Alþýðusambands Norðurlands.  Margt fleira mætti eflaust nefna en einhvers staðar veðrur að setja lokapunktinn í málinu.  Þótt starfsemi Alþýðusambands Norðurlands hafi breyst mikið á þessum sjötíu árum þess þá lifir það enn góðu lífi.

Og höfum eitt hugfast.

Á vettvangi okkar launamanna verður ávallt þörf fyrir  að hittast og taka til umræðu brýn verkefni sem verkalýðshreyfingin glímir við á hverjum tíma og líka að hafa gaman saman.

Þess vegna verður þörf fyrir Alþýðusamband Norðurlands um ókomin ár.

Til hamingju með 70 árin öll Alþýðusamband Norðurlands.

 

Akureyri í september 2017

Hákon Hákonarson.