Sparisjóður Suður Þingeyinga – Breið og góð þátttaka í stofnfjáraukningu

Á vormánuðum 2016 var ákveðið að auka stofnfé Sparisjóðs Suður-Þingeyinga og skyldi stofnfjáraukningunni ljúka í ágúst 2017. Bæði var horft til núverandi stofnfjáreigenda en einnig annarra viðskiptamanna og velunnara sparisjóðsins. Viðtökur hafa verið góðar innan héraðs og einnig hafa allmargir aðilar víðsvegar af landinu tekið þátt. Stofnfé hefur aukist úr 67,5 milljónum í 157 milljónir og stofnfjáreigendur eru nú um 370. Stofnfjáraukningin hefur styrkt félagslega stöðu Sparisjóðs Suður-Þingeyinga og gerir sjóðnum kleift að auka útlán sín og mæta kröfum eftirlitsaðila. Nýir stofnfjáraðilar eru boðnir velkomnir í hópinn og öllum sem lagt hafa sparisjóðnum lið með stofnfjárframlögum er þakkað traustið. Lokið er uppgjöri rekstrar Sparisjóðs Suður-Þingeyinga vegna fyrri árshelmings 2017. Reksturinn var í góðu jafnvægi, bæði innlán og útlán jukust verulega og rekstrarhagnaður
eftir skatta var 14,7 milljónir. Heildareignir í lok tímabilsins voru um 7,9 milljarðar, bókfært eigið fé 618 milljónir og CAD eiginfjárhlutfall sjóðsins 16,4%. (Fréttin byggir á umfjöllun á 641.is)

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Einstaklingar, fjárfestingasjóðir, sveitarfélög og stéttarfélög í Þingeyjarsýslum hafa komið að því kaupa stofnfé í Sparisjóði Suður- Þingeyinga til að efla sjóðinn í heimabyggð. Ekki þarf að taka fram að sjóðurinn er afar mikilvæg fjármálastofnun í héraðinu. Stéttarfélögin Framsýn og Þingiðn hafa nú gerst aðilar að sjóðnum með kaupum á stofnfé.