Benóný Benediktsson sem gegndi formennsku í Verkalýðsfélagi Grindavíkur í tæp þrjátíu ár lést þann 6. júní 2017 en hann var fæddur 28. maí 1928. Útför Benónýs fór fram frá Grindavíkurkirkju þriðjudaginn 20. júní og var fjölmenni á jarðarförinni.
Með Benóný er genginn góður maður og ötull talsmaður verkafólks. Það var mikill heiður að fá að starfa með honum í tæpa þrjá áratugi að verkalýðsmálum. Samstarf okkar var gott í bland við gaman og alvöru. Það var eðlilega töluvert spjallað um verkalýðsmál, sjósókn og landsmálin almennt enda Benóný áhugasamur um flest milli himins og jarðar. Þá var fjölskyldan honum kær. Það var ekki hans stíll að tala fólk niður heldur byggði hans málflutningur á jákvæðni og því sem betur mæti fara í þjóðfélaginu og þar með verkalýðshreyfingunni. Hann átti það til að vera stríðinn. Honum leiddist til dæmis ekki að hringja í mig norður til Húsavíkur eftir að hafa hlustað á veðurfréttirnar þar sem fram kom að veðrið hér fyrir norðan væri afar slæmt og spyrja;Hvernig er veðrið þarna fyrir norðan félagi?
Auðvitað stóð ekki á svari hjá mér sem svaraði um hæl að staðbundið verður í Grindavík væri rigning og rok sem gerði alla menn kollruglaða, þar á meðal hann og síðan var hlegið.
Með þessum orðum vil ég þakka Benóný fyrir einstaklega gott samstarf um tíðina um leið og ég votta fjölskyldu hans innilegrar samúðar. Minning um góðan mann lifir um ókomna tíð.
Aðalsteinn Árni Baldursson formaður Framsýnar, stéttarfélags