Nýliðun, vinnustaðaeftirlit og félagssvæði stéttarfélaga til umræðu á aðalfundi Þingiðnar

Aðalfundur Þingiðnar fór fram í gær. Starfsemi félagsins var öflug á síðasta starfsári, félagsmönnum fjölgaði og tekjur félagsins jukust verulega. Á almennum umræðum urðu miklar umræður um félagssvæði stéttarfélaga, nýliðun í greininni og vinnustaðaeftirlit. Þá voru tvær tillögur um réttarstöðu eldri félagsmanna, öryrkja og iðnaðarmanna sem fara milli félaga innan Samiðnar/ASÍ teknar fyrir og samþykktar. Hvað þessi atriði varðar þá kom fram hörð gagnrýni á Félag Málmiðnarmanna á Akureyri sem gerði félagssvæði Þingiðnar að sínu félagssvæði. Á fundinum kom fram tillaga um að breyta lögum félagsins þannig að félagssvæðið verði landið allt. Eftir umræður var samþykkt að bíða með það í ljósi þess að viðræður eru í gangi milli Þingiðnar og Félags Málmiðnarmanna um félagssvæðið. Þá höfðu fundarmenn áhyggjur af lítilli nýliðun meðal iðnaðarmanna og töldu jafnframt mikilvægt að auka enn frekar vinnustaðaeftirlit.

Hér kom lesa frekar um fundinn. Í skýrslu formanns komu þessi atriði fyrir:

Skýrsla stjórnar

 

Félagatal

Fullgildir félagsmenn í Þingiðn 31. desember 2016 voru 177 talsins,  það er greiðandi félagar, öryrkjar og aldraðir sem áður greiddu til félagsins.  Greiðandi einstaklingar voru 161 á árinu samkvæmt ársreikningum félagsins. Karlar voru 158 og konur 3. Greiðandi félagsmönnum hefur fjölgað verulega milli ára þrátt fyrir að þeir hafi ekki skráð sig formlega í félagið. Um er að ræða erlenda starfsmenn sem illa gengur að fá sín iðnréttindi metin á Íslandi. Til fróðleiks má geta þess að 88 einstaklingar greiddu til félagsins á árinu 2015. Greiðandi félögum fjölgaði því um 83% milli starfsáranna 2015-2016.

Fjármál

Félagsgjöld og iðgjöld ársins námu kr. 11.376.870 sem er 51% hækkun frá fyrra ári. Bætur og styrkir úr sjúkrasjóði árið 2016 námu kr. 5.503.475, þar af úr sjúkrasjóði kr. 4.245.407. Um er að ræða rúmlega tvöföldun á milli ára í útgreiddum styrkjum. Á árinu 2016 fengu samtals 19 félagsmenn greidda sjúkradagpeninga eða aðra styrki úr sjúkrasjóði. Samkvæmt sameinuðum rekstrar- og efnahagsreikningi nam hreinn tekjuafgangur félagsins kr. 6.023.451 og eigið fé í árslok 2016 nam kr. 227.209.474 og hefur það aukist um 3,5% frá fyrra ári. Rekstur skrifstofunnar gekk vel á síðasta ári. Þátttaka Þingiðnar í rekstrarkostnaði nam kr. 3.237.486. Innheimta félagsgjalda var með svipuðu sniði og árið á undan. Almennt eru launagreiðendur samviskusamir að skila félagsgjöldum og mótframlögum á réttum tíma að undanskildum örfáum tilvikum þar sem ítreka þarf skil á iðgjöldum til félagsins.

Orlofsmál

Í gegnum tíðna hafa aðildarfélög Skrifstofu stéttarfélaganna átt mjög gott samstarf um orlofsmál. Í því sambandi eru þau með sameiginlega orlofsnefnd sem vinnur að því að bjóða félagsmönnum upp á marga góða kosti varðandi orlofsdvöl og sífellt er unnið að því að auka framboðið. Þingiðn á eina íbúð í Þorrasölum í Kópavogi. Á síðasta ári dvaldi fjöldi félagsmanna ásamt fjölskyldum sínum í orlofshúsum, orlofsíbúðum, á tjaldsvæðum og hótelum á vegum stéttarfélaganna. Veruleg ásókn er í orlofshúsin en félagið niðurgreiðir orlofsdvöl félagsmanna í orlofsíbúðum/húsum  sem auðveldar fólki að njóta orlofsdvalar með fjölskyldum sínum á Íslandi. Ekki er óalgengt að niðurgreiðslurnar séu um kr. 50.000 fyrir viku dvöl. Þá fengu 11 félagsmenn endurgreiðslur vegna dvalar á tjaldsvæðum eða alls kr. 201.800,-. Félagið stóð fyrir sumarferð um Laxárdal sumarið 2016 sem tókst í alla staði mjög vel. Gengið var frá Laxárbakka í Mývatnssveit að Ljótsstöðum í Laxárdal. Þaðan var ekið að Halldórsstöðum þar sem menn grilluðu og nutu góða veðursins. Í sumar er fyrirhuguð ferð með félagsmenn í Borgarfjörð Eystri. Síðastliðið haust tóku aðildarfélög Skrifstofu stéttarfélaganna á leigu orlofshús á Spáni.  Frá þeim tíma hefur íbúðin staðið félagsmönnum til boða. Nokkuð hefur verið um að félagsmenn stéttarfélaganna hafi notfært sér þennan orlofskost. Þingiðn ber ekki kostnað af orlofshúsinu heldur niðurgreiðir dvöl félagsmanna.  Félagsmönnum stéttarfélaganna stendur til boða að kaupa miða í Hvalfjarðargöngin, gistimiða og ódýr flugfargjöld sem skiptast þannig fyrir árið 2016:

Seldir flugmiðar     4.165                     Sparnaður fyrir félagsmenn        kr. 44.982.000,-

Seldir miðar í göng          2.738           Sparnaður fyrir félagsmenn        kr.      958.300,-

Seldir gistimiðar                  730        Sparnaður fyrir félagsmenn        kr.   1.606.000,-

Samtals sparnaður fyrir félagsmenn       kr. 47.546.300,-

Þorrasalir 1-3

Útleiga á íbúð félagsins í Kópavogi hefur gengið vel og hefur nýtingin verið mjög góð. Það sama á við um þau orlofshús sem félagið hefur haft á leigu í samstarfi með öðrum aðildarfélögum Skrifstofu stéttarfélaganna.

Fræðslumál

Ekki voru haldinn námskeið á vegum félagsins á síðasta starfsári. Hafi félagsmenn óskir um námskeið eru þeir vinsamlegast beðnir um að koma þeim til stjórnar eða starfsmanna félagsins. Þá eru dæmi um að félagsmenn fari á eigin vegum á námskeið. Í þeim tilfellum hefur Þingiðn komið að því að niðurgreiða námskeiðin fyrir félagsmenn.  Á síðasta ári fengu 10 félagsmenn styrki til náms/námskeiða samtals kr. 548.132. Félagsmenn Þingiðnar hafa ekki aðgengi að fræðslusjóðum eins og þekkt er hjá almennum stéttarfélögum eins og Framsýn, þess í stað þarf félagið að greiða fræðslustyrki úr félagssjóði félagsins. Hugmyndin var að skoða stofnun á Starfsmenntasjóði milli aðalfunda. Því miður hefur ekki tekist að klára þá vinnu. Vonandi verður hægt að leggja fram tillögu þess efnis á næsta aðalfundi.

Málefni sjúkrasjóðs

Eins og fram kemur í ársreikningum félagins voru greiðslur til félagsmanna úr sjúkrasjóði félagsins samtals kr. 4.245.407 á árinu 2016 sem er veruleg aukning milli ára. Árið 2015 voru greiddar kr. 1.892.101 í styrki til félagsmanna.

Greiðslur til félagsmanna árið 2016 skiptast þannig:

Almennir sjúkrastyrkir   kr.     485.844,-

Sjúkradagpeningar         kr. 3.759.563,-.

Kjaramál

Skrifað var undir nýjan kjarasamning milli Samtaka atvinnulífsins og Samiðnar 29. maí 2015 með gildistíma til 31. desember 2018. Kjarasamningurinn kom til endurskoðunar í febrúar 2017. Þrátt fyrir að forsendur samningsins væru brostnar var samþykkt að bíða með uppsögn á samningnum. Það er gert í ljósi þess að stórir hópar launþega innan opinberra geirans eru með lausa samninga á árinu. Því var talið rétt að bíða með endurskoðunina fram í febrúar á næsta ári. Framundan er mikil áskorun fyrir Framsýn og Þingiðn að ná samningum við PCC á Bakka um kjör starfsmanna. Því miður hafa viðræður aðila fram að þessu ekki skilað tilætluðum árangri þar sem fyrirtækið hefur neitað félögunum um gerð kjarasamnings fyrir störf í verksmiðjunni sem eru vonbrigði. Þess í stað hafa forsvarsmenn fyrirtækisins opnað á að gera samkomulag við félögin um launakjör starfsmanna og nokkur atriði er varðar önnur kjör og aðbúnað starfsmanna. Þreifingar aðila um niðurstöðu munu halda áfram næstu vikurnar og mánuðina.

Atvinnumál og vinnustaðaeftirlit

Atvinnuástandið hjá iðnaðarmönnum er almennt mjög gott um þessar mundir og mikið að gera hjá flestum iðnaðarmönnum enda miklar framkvæmdir í gangi á svæðinu. Vissulega fylgja ógnanir slíkum framkvæmdum varðandi undirboð sérstaklega er varðar laun og starfsréttindi. Í mars 2016 réðu stéttarfélögin, Þingiðn og Framsýn, starfsmann í vinnustaðaeftirlit vegna aukinna umsvifa á félagssvæðinu. Umsvifin hafa verið í sögulegu hámarki, sérstaklega í ferðaþjónustu og byggingariðnaði. Eftirlitið hefur gengið vel og hefur því almennt verið vel tekið af forsvarsmönnum fyrirtækja sem og starfsfólki. Ljóst er að eftirlitið er þegar farið að skila tilætluðum árangri. Það hefur fengist staðfest meðal annars með góðum viðbrögðum þeirra fyrirtækja sem heimsótt hafa verið. Þá hefur starfsfólk sem og forsvarsmenn fyrirtækja gjarnan haft samband við Skrifstofu stéttarfélaganna í kjölfar heimsókna á þeirra vinnustaði með hin ýmsu álitamál. Þetta á ekki síst við um erlent starfsfólk sem kemur hingað tímabundið til starfa og er taka sín fyrstu skref á íslenskum vinnumarkaði. Samstarf við aðrar eftirlitsstofnanir hefur verið með miklum ágætum. Farið hefur verið í sameiginlegar eftirlitsferðir með Lögreglu, Ríkisskattstjóra, Vinnueftirlitinu og Vinnumálastofnun. Þær ferðir hafa verið sérlega vel heppnaðar. Mikill vilji er fyrir því hjá stéttarfélögunum að halda þessu samstarfi áfram. Auk þess voru farnar ferðir þar sem færri eftirlitsaðilar komu að vinnustaðaheimsóknunum. Rétt er að taka fram að samstarfið við Vinnueftirlitið hefur verið sérstaklega gott og ber að þakka fyrir það. Heilt yfir er ástand vinnumarkaðarins á starfssvæðinu gott. Vitaskuld koma annað slagið upp mál sem krefjast viðbragða, við það verður ekki sloppið. Ennfremur er ljóst að gott ástand vinnumarkaðarins gerist ekki að sjálfu sér. Enginn vafi er á því að ef eftirlit og aðhald stéttarfélaganna væri ekki til staðar, myndi ástandið versna til muna. Það sést til dæmis á því að forsvarsmenn fyrirtækja sem koma með starfsemi inn á svæðið leita mikið eftir aðstoð og þjónustu stéttarfélaganna. Þá ber þess að geta að Landsvirkjun og Landsnet hafa komið að eftirliti stéttarfélaganna, Framsýnar og Þingiðnar ásamt Rafiðnarsambandi Íslands, VM og Samiðn. Í upphafi var verkefninu ætlað að standa í tvö ár og síðan stendur til að meta árangurinn af því og hvort haldið  verður áfram með formlegt eftirlit eða ekki. Ákvörðun hvað það varðar verður tekin um næstu áramót.

Hátíðarhöldin 1. maí

Stéttarfélögin stóðu fyrir hátíðarhöldum í Íþróttahöllinni á Húsavík 1. maí 2017.  Hátíðarhöldin tókust að venju frábærlega en um 600 gestir lögðu leið sína í höllina.  Um er að ræða fjölmennustu samkomu sem haldin er í Þingeyjarsýslum á hverju ári sem er áhugavert og mikil viðurkenning á starfsemi stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum sem leggja mikið upp úr þessum degi.

Starfsemi félagsins

Þingiðn hefur komið að mörgum málum frá síðasta aðalfundi. Ástæða er til að gera aðeins grein fyrir nokkrum þeirra. Félagið hefur komið upp samstarfi við Íslandsbanka þar sem aðilar frá stéttarfélögunum og útibúi bankans á Húsavík hittast reglulega og fara yfir þróun vaxtamála á reikningum stéttarfélaganna á hverjum tíma. Afar mikilvægt er að fylgst sé reglulega með þróun vaxtamála enda hefur ávöxtun félaganna á bankainnistæðum bein áhrif á starfsemi þeirra og getu til að gera vel við félagsmenn. Aðildarfélög Skrifstofu stéttarfélaganna stóðu fyrir opnu húsi á aðventunni í desember líkt og undanfarin ár. Boðið var upp á kaffi, tertur og tónlistaratriði. Fjölmargir lögðu leið sína á Skrifstofu stéttarfélaganna og þáðu veitingar. Félagið niðurgreiddi leikhúsmiða til félagsmanna á sýninguna  Bót og betrun í leikgerð Leikfélags Húsavíkur og Skilaboðaskjóðuna í leikgerð, Leikdeildar Eflingar.  Leikritin voru til sýningar eftir áramótin 2017. Skrifstofa stéttarfélaganna endurnýjaði samning við Verkalýðsfélag Þórshafnar um áframhaldandi samstarf félaganna um málefni félagsmanna og samfélagsins í Þingeyjarsýslum. Samstarf þessara félaga hefur verið til mikillar fyrirmyndar til fjölda ára. Nýr framkvæmdastjóri tók við starfi hjá Verkalýðsfélagi Þórshafnar á árinu 2016, Sigríður Jóhannesdóttir, og er hún boðin velkomin til starfa. Skrifstofa stéttarfélaganna endurnýjaði samkomulag um stuðning við Lionsklúbb Húsavíkur vegna forvarnaverkefnis gegn ristilkrabbameini. Árlegt framlag Skrifstofu stéttarfélaganna er kr. 200.000 til fimm ára samkv. skilyrðum samnings. Félögin sem koma til með að greiða þetta framlag eru auk Þingiðnar, Framsýn, STH og Verkalýðsfélag Þórshafnar

Starfsemi Virk – starfsendurhæfingarsjóðs

Virk – starfsendurhæfingarsjóður var stofnaður árið 2008 af aðilum vinnumarkaðarins. Í júní 2012 voru sett lög um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða, lög nr. 60/2012, sem sjóðurinn starfar eftir. Í samvinnu Virk og Framsýnar, Þingiðnar, Starfsmannafélags Húsavíkur og Verkalýðsfélags Þórshafnar hefur verið rekin skrifstofa Virk í Þingeyjarsýslum frá árinu 2009. Markmið Virk – starfsendurhæfingarsjóðs er að draga úr líkum á því að einstaklingar hverfi af vinnumarkaði vegna heilsubrests. Þjónusta við einstaklinga felst í persónulegri ráðgjöf og hvatningu, samvinnu um áætlun um eflingu starfsgetu og endurkomu á vinnumarkað, vali á endurhæfingarúrræðum í samvinnu við einstakling og fagfólk og leiðbeiningum um réttindi, framfærslu og þjónustu á svæðinu. Góð reynsla er af starfsemi Virk – starfsendurhæfingarsjóðs á svæðinu s.l. ár. Stöðugleiki er í starfseminni og góð samvinna er við heilbrigðis- og félagsþjónustu, úrræðaaðila s.s. Sjúkraþjálfun Húsavíkur og fyrirtæki og stofnanir eru virk í samvinnu um málefni starfsmanna sinna sem glíma við heilsubrest.

Mikið er lagt upp úr að þjónustan sé sýnileg og aðgengileg, hvort heldur til almennrar ráðgjafar fyrir félagsmenn, formlegrar samvinnu við einstaklinga í starfsendurhæfingu eða samstarf við úrræðaaðila og launagreiðendur.

Samkomulag við Flugfélagið Erni

Í nóvember 2013 gerðu stéttarfélögin samkomulag við Flugfélagið Erni um sérstök kjör á flugfargjöldum milli Húsavíkur og Reykjavíkur. Síðan þá hefur samkomulagið verið endurnýjað með reglubundnum hætti. Samkomulagið byggir m.a. á því að félögin gera magnkaup á flugmiðum og endurselur til félagsmanna. Þannig geta félagsmenn ferðast milli Húsavíkur og Reykjavíkur eða frá Reykjavík til Húsavíkur fyrir aðeins kr. 8.900,- aðra leið, það er í einkaerindum. Flugmiðarnir sem seldir eru á kostnaðarverði eru aðeins ætlaðir félagsmönnum og geta þeir einir ferðast á þessum kjörum. Án efa er þetta ein besta kjarabót sem stéttarfélögin hafa samið um fyrir félagsmenn þegar við horfum til þess að félögin hafa sparað félagsmönnum umtalsverðar upphæðir síðan þau hófu að selja félagsmönnum flugmiða á þessum hagstæðu kjörum. Með samkomulagi við flugfélagið í byrjun þessa árs hafa félögin tryggt að verðið kr. 8.900 muni haldast út árið 2017 sem eru að sjálfsögðu ánægjuleg tíðindi.

Húsnæði stéttarfélaganna

Nýlega tóku stéttarfélögin í notkun nýtt skrifstofuhúsnæði að Garðarsbraut 26 – efri hæð. Það verða Framsýn og Þingiðn sem koma til með að eiga þennan hluta af húsnæðinu, Félögin eiga einnig og reka neðri hæðina í sameiningu ásamt Starfsmannafélagi Húsavíkur. Þar verður Skrifstofa stéttarfélaganna rekin áfram eins og verið hefur til fjölda ára. Eignarhluturinn á efri hæðinni skiptist þannig: Framsýn á 84% og Þingiðn 16% og hafa félögin stofnað með sér sameignarfélag um reksturinn, Hrunabúð sf. Nafnið er í höfuðið á verslun sem rekin var í húsnæðinu á vegum Kaupfélags Þingeyinga hér á árum áður, það er á neðri hæðinni. Til stóð að nota nafnið Prýði en það fékkst ekki leyfi fyrir því þar sem það var þegar  í notkun, en saumastofan Prýði var lengi starfrækt á hæðinni sem nú hefur fengið nýtt hlutverk. Það var árið 2013 sem stéttarfélögin ákváðu að kaupa efri hæðina að Garðarsbraut 26 af Sparisjóði Vestmannaeyja. Eignin var keypt á 13.376.500. Áður hafði hæðin verið auglýst til sölu á almennum markaði í nokkur ár án þess að hún seldist. Lítill áhugi reyndist vera hjá fjárfestum að kaupa eignina undir atvinnustarfsemi og gera hana upp, en tími var komin á mikið og kostnaðarsamt  viðhald. Við þessar aðstæður, það er að eignin seldist ekki og að viðhald eignarhlutans var í algjöru lágmarki sáu stéttarfélögin sig tilneydd til að kaupa efri hæðina. Langvarandi viðhaldsskortur var farinn að hafa alvarlegar afleiðingar fyrir eign stéttarfélaganna, það er neðri hæðina. Efri hæðin var ekki kynnt almennilega, raki var farinn að myndast í veggjum og meðfram gluggum. Í miklum rigningum streymdi vatnið af norðurhliðinni í gegnum vegginn niður á neðri hæðina með tilheyrandi hættu á eignatjóni. Við þessar aðstæður var hreinlega ekki hægt að búa við lengur. Þrátt fyrir að það væri ekki á stefnuskrá félaganna og ekki bein þörf fyrir stærra húsnæði var ákveðið að slá til og kaupa efri hæðina. Fljótlega var ráðist í að lagfæra húsið að utan með múrviðgerðum og málningu, gera það vatnshelt og bæta við kyndinguna. Beðið var með frekari framkvæmdir að innanverðu ef ske kynni að fjárfestar kæmu og vildu kaupa hæðina af stéttarfélögunum til að gera hana frekar upp. Það gerðist ekki, þannig að ákveðið var að ganga til samninga við Arnhildi Pálmadóttur arkitekt um að útfæra skrifstofur og lítinn fundarsal á hæðinni og koma  húsnæðinu í notkun. Arnhildi tókst afar vel til við hönnunina, sem er henni til mikils sóma. Þrátt fyrir að ekki hafi verið markmiðið að kaupa eignina, þá skiptir verulega miklu máli hvers konar starfsemi velst í húsnæði þar sem fyrir er skrifstofuhald. Það var t.d. töluverð truflun fyrir starfsemina þegar rekin var líkamsræktarstöð á efri hæðinni, það er fyrir ofan fundarsal stéttarfélaganna. Þessi starfsemi fór engan vegin saman vegna hljóðmengunar og þá voru bílastæðin við húsnæðið oft teppt. Með þessari framkvæmd er tryggt að hér verður skrifstofuhald í húsinu næstu misserin. Varðandi framkvæmdina sjálfa, þá buðu stéttarfélögin hana út, það er í febrúar á árinu 2016. Ekki var reiknað með mörgum tilboðum í ljósi þeirra miklu þenslu sem er í byggingariðnaði hér á svæðinu . Enda fór það svo að aðeins eitt tilboð barst í verkið, frá fyrirtækinu H-3 á Húsavík þrátt fyrir að nokkur önnur fyrirtæki næðu sér í útboðsgögn. Eftir smá fínstillingar reyndist tilboðið vera upp á 30,4 milljónir. Tilboðinu var tekið og hófust framkvæmdir í lok desember 2016. Þess ber að geta að ekki var fyrirséð hvað þyrfti að endurbæta varðandi frárennslislagnir, hita- og kaldavatnskerfið í húsinu sem var fyrir fyrir löngu komið á tíma. Ákveðið var að bjóða þann hluta ekki út. Fyrirtækið Lagnatak var ráðið í verkið og sáu þeir um að leggja nýtt kerfi í hæðina sem og frárennsli. Rétt er að þakka öllum þeim sem komu að þessu verkefni fyrir samstarfið sem gekk afar vel, auðvitað hafa verið smá pústrar af og til, en svo litlir að ekki hefur þurft að setja plástra á sár eða að menn hafi þurft að nota bólgueyðandi krem eftir samskipti aðila. Sá hluti húsnæðisins sem stéttarfélögin koma ekki til með að nota verður leigður út á vegum Hrunabúðar sf.

Málefni skrifstofunnar

Rekstur skrifstofu stéttarfélaganna gekk að venju vel á síðasta starfsári. Í dag starfa 6 starfsmenn á skrifstofunni í fullu starfi og einn starfsmaður er í hlutastarfi við ræstingar og þrif. Til viðbótar eru fjórir starfsmenn í 0,5% stöðugildum við umsjón á orlofsíbúðum/húsum sem eru í eigu stéttarfélaganna. Stéttarfélögin halda úti öflugri heimasíðu og Fréttabréfi sem tengir hinn almenna félagsmann við stjórn félagsins, starfsmenn og félagið í heild sinni. Full ástæða er til að hvetja félagsmenn til að fylgjast með starfi félagsins inn á heimasíðu stéttarfélaganna sem reglulega er uppfærð með fréttum og tilkynningum til félagsmanna auk þess sem hægt er að nálgast þar aðrar þarfar upplýsingar inn á vefnum er snerta til dæmis kjaramál. Skrifstofa stéttarfélaganna er opin átta tíma á dag. Starfsfólk skrifstofunnar er í góðu sambandi við félagsmenn og eru heimsóknir á skrifstofuna mjög tíðar, auk þess sem stórum hluta starfsins er sinnt í gegnum síma og með heimsóknum á vinnustaði og í skóla. Ekki eru fyrirsjáanlegar frekari breytingar á rekstri skrifstofunnar.

Góð nýting er á félagsaðstöðunni enda mikil starfsemi í gangi á vegum stéttarfélaganna.

Lokaorð

Skýrslan er að venju ekki tæmandi um starfsemi félagsins því hér hefur aðeins verið farið yfir helstu málaflokka og málefni sem félagið hefur komið að milli aðalfunda. Það er von stjórnarinnar að skýrsla þessi gefi lauslegt yfirlit yfir það helsta í fjölbreyttu félagsstarfi, um leið og hún þakkar félagsmönnum, þeim sem hafa haft trúnaðarstörf fyrir félagið á hendi og starfsmönnum félagsins fyrir gott samstarf og vel unnin störf á árinu.

Þá voru þessar tvær tillögur samþykktar á fundinum auk þess sem áhugi er fyrir því að stofna starfsmenntasjóð innan félagsins sem félagsmönnum bjóðist að fá greiðslur úr vegna náms- eða námskeiðskostnaðar. Samþykkt var að leggja tillögu þess efnis fram á næsta aðalfundi:

  1. Réttindi öryrkja og eftirlaunafólks innan félagsins

Aðalfundur Þingiðnar samþykkir að öryrkjar og eftirlaunafólk sem greiddu til félagsins við starfslok viðhaldi sínum réttindum að fullu m.v. greitt félagsgjald samkvæmt lögum og reglugerðum félagsins á hverjum tíma og ákvæðum kjarasamninga. Þá er við það miðað að réttindi þessa hóps falli undir skuldbindingar félagsins gagnvart lögum og reglugerðum Alþýðusambands Íslands og þeirra aðildarsambanda sem Þingiðn á aðild að á hverjum tíma.

  1. Réttindi þeirra sem fara milli félaga innan ASÍ og greiða til Þingiðnar

Samþykkt er að þeir félagsmenn sem ganga formlega í Þingiðn og greiddu áður í stéttarfélög innan Alþýðusambands Íslands flytji að fullu með sér áunninn réttindi frá þeim félögum sem þeir áður greiddu til sem taki mið af reglugerðum sjóða og félagslögum Þingiðnar á hverjum tíma. Það er eftir að viðkomandi aðilar hafa greitt í einn mánuð eða lengur til félagsins.

Miklar og góðar umræður urðu á aðalfundi Þingiðnar sem fram fór í gær, sjá myndir: