Stéttarfélögin tóku í notkun nýtt endurbætt húsnæði á föstudaginn að Garðarsbraut 26, efri hæð, sem er allt hið glæsilegasta. Við það tækifæri var því fagnað með viðeigandi hætti. Verktakar sem komið hafa að framkvæmdunum og stjórnir stéttarfélaganna gerðu sér glaðan dag enda full ástæða til þess. Verktakinn H-3 var aðalverktakinn. Stofnað hefur verið sameignarfélag um reksturinn, Hrunabúð sf. Til stendur að leggja út rýmin til lengri eða skemmri tíma á vegum leigufélagsins. Um er að ræða 8 skrifstofur. Eftir að Sparisjóður Vestmannaeyja eignaðist húsnæðið á sínum tíma hefur húsnæðið ekki selst, ekki síst þar sem það var komið á mikið viðhald. Þar sem viðhaldsleysið var farið að valda stéttarfélögunum vandræðum og skemmdum á neðri hæðinni sem er í eigu stéttarfélaganna var ákveðið að ráðast í kaup á húsnæðinu þrátt fyrir að það hafi ekki verið á stefnuskrá félaganna. Í stuttu ávarpi við vígsluna fór formaður Framsýnar nokkrum orðum um framkvæmdina og tilurð þess að stéttarfélögin eignuðust eignina og réðust í breytingarnar.
Ágætu gestir!
Það er ekki bara að menn fagni gegnumslagi í gegnum Vaðlaheiði í dag heldur erum við hér saman komin til að halda upp á verklok á nýju skrifstofuhúsnæði stéttarfélaganna að Garðarsbraut 26. Það verða Framsýn og Þingiðn sem koma til með að eiga þennan hluta af húsnæðinu, Félögin eiga einnig og reka neðri hæðina í sameiningu ásamt Starfsmannafélagi Húsavíkur. Þar verður skrifstofa stéttarfélaganna rekin áfram eins og verið hefur til fjölda ára.
Eignarhluturinn á efri hæðinni skiptist þannig: Framsýn á 84% og Þingiðn 16% og hafa félögin stofnað með sér sameignarfélag um reksturinn, Hrunabúð sf. Nafnið er í höfuðið á verslun sem rekin var í húsnæðinu á vegum Kaupfélags Þingeyinga hér á árum áður, það er á neðri hæðinni.
Til stóð að nota nafnið Prýði en það fékkst ekki leyfi fyrir því þar sem það var þegar í notkun, en saumastofan Prýði var lengi starfrækt á hæðinni sem nú hefur fengið nýtt hlutverk.
Það var árið 2013 sem stéttarfélögin ákváðu að kaupa efri hæðina að Garðarsbraut 26 af Sparisjóði Vestmannaeyja. Eignin var keypt á 13.376.500.
Áður hafði hæðin verið auglýst til sölu á almennum markaði í nokkur ár án þess að hún seldist. Lítill áhugi reyndist vera hjá fjárfestum að kaupa eignina undir atvinnustarfsemi og gera hana upp, en tími var komin á mikið og kostnaðarsamt viðhald.
Við þessar aðstæður, það er að eignin seldist ekki og að viðhald eignarhlutans var í algjöru lágmarki sáu stéttarfélögin sig tilneydd til að kaupa efri hæðina. Langvarandi viðhaldsskortur var farinn að hafa alvarlegar afleiðingar fyrir eign stéttarfélaganna, það er neðri hæðina.
Efri hæðin var ekki kynnt almennilega, raki var farinn að myndast í veggjum og meðfram gluggum. Í miklum rigningum streymdi vatnið af norðurhliðinni í gegnum vegginn niður á neðri hæðina með tilheyrandi hættu á eignatjóni. Við þessar aðstæður var hreinlega ekki hægt að búa við lengur. Þrátt fyrir að það væri ekki á stefnuskrá félaganna og ekki bein þörf fyrir stærra húsnæði var ákveðið að slá til og kaupa efri hæðina.
Fljótlega var ráðist í að lagfæra húsið að utan með múrviðgerðum og málningu, gera það vatnshelt og bæta við kyndinguna. Beðið var með frekari framkvæmdir að innanverðu ef ske kynni að fjárfestar kæmu og vildu kaupa hæðina af stéttarfélögunum til að gera hana frekar upp. Það gerðist ekki, þannig að ákveðið var að ganga til samninga við Arnhildi Pálmadóttur arkitekt um að útfæra skrifstofur og lítinn fundarsal á hæðinni og koma húsnæðinu í notkun.
Eins og sjá má, tókst Arnhildi afar vel til við hönnunina, sem er henni til mikils sóma. Það má Arnhildur einnig eiga að hún hefur verið tilbúin að hlusta á mis gáfulegar breytingatillögur sem komið hafa frá stéttarfélögunum og verktökum. Samstarfið um breytingarnar hefur verið til mikillar fyrirmyndar.
Þrátt fyrir, eins og ég sagði áðan að ekki hafi verið markmiðið að kaupa eignina, þá skiptir verulega miklu máli hvers konar starfsemi velst í húsnæði þar sem fyrir er skrifstofuhald.
Það var t.d. töluverð truflun fyrir starfsemina þegar rekin var líkamsræktarstöð á efri hæðinni, það er fyrir ofan fundarsal stéttarfélaganna. Þessi starfsemi fór engan vegin saman vegna hljóðmengunar og þá voru bílastæðin við húsnæðið oft teppt. Með þessari framkvæmd er tryggt að hér verður skrifstofuhald í húsinu næstu misserin.
Varðandi framkvæmdina sjálfa, þá buðu stéttarfélögin hana út, það er í febrúar á árinu 2016. Ekki var reiknað með mörgum tilboðum í ljósi þeirra miklu þenslu sem er í byggingariðnaði hér á svæðinu . Enda fór það svo að aðeins eitt tilboð barst í verkið, frá fyrirtækinu H-3 á Húsavík þrátt fyrir að nokkur önnur fyrirtæki næðu sér í útboðsgögn. Eftir smá fínstillingar reyndist tilboðið vera upp á 30,4 milljónir. Tilboðinu var tekið og hófust framkvæmdir í lok desember 2016, þær framkvæmdir sem við erum að fagna hér í dag.
Þess ber að geta að ekki var fyrirséð hvað þyrfti að endurbæta varðandi frárennslislagnir, hita- og kaldavatnskerfið í húsinu sem var fyrir fyrir löngu komið á tíma. Ákveðið var að bjóða þann hluta ekki út. Fyrirtækið Lagnatak var ráðið í verkið og sáu þeir um að leggja nýtt kerfi í hæðina sem og frárennsli.
Þá er ekki hægt að ráðast í breytingar nema vita símanúmerið hjá Kristjáni Halldórssyni. Hann var að sjálfsögðu kallaður til þegar tölvu- og símasamband datt út hjá góðum nágrönnum okkar í suðurendanum að Garðarsbraut 26, það er eftir að lagnir í vegg höfðu verið sagaðar í sundur til að koma fyrir eldvarnarstiga/rýmingarleið frá efri hæðinni. Að sjálfsögðu var málinu reddað í hvelli og sambandi við umheiminn komið á aftur.
Ég vil nota tækifærið og þakka arkitektinum, aðalverktakanum H-3 og undirverktökum hans sem og Lagnataki og Kidda Halldórs og samstarfsmanni hans fyrir gott verk og samstarf. Ég tel að samstarfið hafi gengið afar vel, auðvitað hafa verið smá pústrar af og til , en svo litlir að ekki hefur þurft að setja plástra á sár eða að menn hafi þurft að nota bólgueyðandi krem eftir samskipti aðila.
Eins og ég hef komið inn á, þá hafa margir komið að þessu verkefni. Ég tel mig knúinn til að nefna fjóra aðila sérstaklega enda hefur mikið mætt á þeim varðandi breytingarnar á húsnæðinu. Þetta eru þau Arnhildur Pálmadóttir, Hermann Benediktsson, Þórólfur Aðalsteinsson og Vigfús Leifsson, en hann hefur haldið utan um verkefnið fyrir hönd aðalverktakans. Fulltrúar stéttarfélaganna hafa átt mjög gott samstarf við þau öll um lausn þeirra fjölmörgu mála sem hafa komið upp á framkvæmdatímanum.
Hvað tekur við ? Hluti af húsnæðinu hefur verið leigður út og munu nýir legendur taka við þremur skrifstofum af þeim sjö til átta sem verða í útleigu. Þar sem skrifstofurnar eru rúmgóðar og af ýmsum stærðum eru möguleikar á að hafa nokkra starfsmenn í hverri þeirra. Sem dæmi má nefna að 5 til 6 starfsmenn verða með starfstöðvar í þeim þremur skrifstofum sem þegar hafa verið leigðar út. Stéttarfélögin verða áfram að mestu á neðri hæðinni en munu nota nýja fundarsalinn á efri hæðinni fyrir ört vaxandi starfsemi félaganna.
Eins og fram kom í upphafi hefur verið stofnað sérstakt leigufélag um reksturinn, sem mun sjá um að reka eignina sem fellur undir Hrunabúð sf. Áhugasömum býðst að fá þær skrifstofur sem enn eru á lausu leigðar. Um er að ræða mjög glæsilegar skrifstofur og þá verður öll aðstaða fyrir starfsfólk eins og hún gerist best. Í boði er að leigja skrifstofupláss til lengri tíma, og eins til skemmri tíma þurfi menn á aðstöðu að halda vegna tímabundina verkefna í Þingeyjarsýslum.
Með þessum orðum ætla ég ljúka máli máli mínu og bjóða ykkur að skoða húsnæðið og njóta þeirra veitinga sem hér eru í boði stéttarfélaganna.